Viðskipti innlent

FBI, Skype, Google og Cisco á Haustráðstefnu Advania

Stefán Árni Pálsson skrifar
Advania heldur hina árlegu Haustráðstefnu í tuttugasta sinn í Hörpu þann 12. september n.k. Dagskrá ráðstefnunnar liggur nú fyrir og á henni verða tuttugu og sjö fyrirlestrar á þremur fyrirlestralínum: Öryggi og tækni, Stjórnun og Nýsköpun. Þetta kemur fram í frétttilkynningu frá Advania.

Sextán erlendir sérfræðingar frá aðilum eins og FBI, Microsoft, Google, Cisco, EMC, Citrix og Samsung fara yfir strauma og stefnur í tækni og upplýsingaöryggi.

Þaulreynt fagfólk úr atvinnulífinu hér heima og erlendis greinir frá því hvernig það hefur nýtt upplýsingatæknina til að leysa úr krefjandi verkefnum eða í nýsköpun.

Að þessu sinni tala fjórir lykilfyrirlesarar. Þeir eru Þorsteinn B. Friðriksson forstjóri og stofnandi Plain Vanilla Games, Carlos Dominguez aðstoðarforstjóri hjá Cisco, Magnús Scheving frumkvöðull og Jesper Stormholt sem stýrir Google Enterprise á Norðurlöndunum.

Nokkur leiðandi fyrirtæki í upplýsingatækni munu einnig sýna nýjustu lausnir og græjur á sérstöku Expó svæði.

„Markmiðið með Haustráðstefnunni er að miðla því sem efst ber í upplýsingatækni á hverjum tíma og benda á leiðir til þess að ná ávinningi og samkeppnisforskoti,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.

Hann segir að á síðasta ári hafi fyrirtækið haldið fjölsóttustu Haustráðstefnu til þessa en þá hafi Advania fengið níu hundruð gesti á ráðstefnuna.

„Haustráðstefnan er því fyrir löngu búin að festa sig í sessi sem stærsti viðburðurinn ársins í upplýsingatækni. Hún er einstakt tækifæri fyrir stjórnendur og sérfræðinga að fá beint í æð það sem er að gerast í hinum síbreytilega heimi upplýsingatækninnar,“ segir Gestur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×