Skoðun

Símtalið á kjördag

Freyja Haraldsdóttir skrifar
Rétt eftir að hafa kosið með aðstoðarkonu af eigin vali á kjördag fékk ég símtal sem satt best að segja dró talsvert úr hátíðleika dagsins í mínum huga og fyllti mig sorg.

Maðurinn í símanum var sonur manns með parkinson sem hafði rétt áður verið meinað að kjósa sökum skerðingar sinnar. Faðirinn er með hreyfihömlun í kjölfar parkinson sjúkdómsins og á erfitt með að tjá sig með þeim hætti sem meginþorri samfélagsins skilgreinir sem skýra og eðlilega tjáningu.

Fatlaði maðurinn sem hafði valið son sinn til þess að aðstoða sig við að greiða atkvæði sitt, fylgist vel með samfélagsumræðunni og hefur skýrar pólitískar skoðanir gat ekki tjáð vilja sinn um hver ætti að aðstoða hann með nægilega skýrum hætti fyrir fulltrúa kjörstjórnar í sinni kjördeild.

Lögum samkvæmt var sonur mannsins sendur fram á meðan kjörstjórn átti að ganga úr skugga um að faðirinn vildi fá aðstoð frá syni sínum við að greiða atkvæðið.

Þegar sonurinn kom aftur inn var honum tjáð að ekki hefðu fengist nógu skýr svör frá föðurnum og hann gæti því ekki kosið. Að sögn sonarins fór þetta fram með hranalegum og ónærgætnum hætti. Hann kærði ákvörðunina til yfirkjörstjórnar sem staðfesti þessa ákvörðun; maðurinn fékk ekki að kjósa.



Fatlandi kosningalög

Í lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 kemur fram í 63. ákvæði að ,,aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill verja atkvæði sínu.” Þegar kosningalögum var breytt árið 2012 með þeim hætti að fatlað fólk sem þarf aðstoð við að greiða atkvæði sitt, megi kjósa leynilega með aðstoð að eigin vali var jafnframt sett inn klausa í sama ákvæði sem gerir kröfu um skýrleika í tali.

Þar segir ,,Kjörstjórn skal heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandi sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúa sem hann hefur valið sjálfur.

Geti kjósandi ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn þennan vilja sinn skal kjörstjórn heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafi valið sjálfur tiltekinn nafngreindan fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Uppfylli kjósandi ekki framangreind skilyrði verður ekki af atkvæðagreiðslu með þessum hætti.”

Í þessu ákvæði er margt athugunarvert. Í fyrsta lagi er hugtakið ,,skýrt” ekki skilgreint frekar og er þar með mjög loðið. Gengið er út frá því að allir eigi að geta talað eins og að allir eigi að geta skilið alla. Það er á allan hátt óraunhæf krafa í ljósi þess að fatlað fólk tjáir sig sumt óhefðbundið og einungis þeir sem standa því næst geta skilið talið. Í öðru lagi er krafan um vottorð réttindagæslumann ósanngjörn.

Lög um réttindagæslu eru tiltölulega ný og hafa að mínu viti verið illa kynnt fyrir fötluðu og/eða langveiku fólki. Fyrir kosningar sá ég enga umræðu um að þeir sem ekki gætu tjáð sig skýrt þyrftu vottorð samkvæmt þessum lögum og veit ekki til þess að upplýsingar um slíkt væru send á öll heimili í landinu. Sem hefði að mínu mati verið eðlilegt. Fólk býr ekki við réttindi ef það veit ekki af þeim. Í þriðja lagi þykir mér undarlegt að ekkert neyðarúrræði sé fyrir hendi. Hvers vegna eru réttindagæslumenn eða aðrir sem gætu starfað fyrir þeirra hönd ekki á bakvakt á kjördag?

Hvers vegna er ekki hægt að kalla eftir úrskurði réttindagæslumanns samstundis? Höldum við virkilega að öllu fötluðu og/eða langveiku fólki og aðstandendum detti það í hug að sjálfu sér að lesa kosningalög fyrir kosningar eða ný lög sem það veit jafnvel ekki að eru til? Er það krafa sem gerð er á ófatlað fólk eða fólk sem er ekki langveikt? Finnst okkur það í alvörunni íslenskum þjóðfélagsþegnum samboðið að mega ekki kjósa í lýðræðislegum kosningum ef tjáning þeirra hentar ekki meginstraumnum?



Ófullgild mannréttindi fatlaðs fólks

Þegar lagabreytingarnar um að fatlað og/eða langveikt fólk gæti kosið með aðstoð að eigin vali gengu í gildi fyrir tveimur árum gagnrýndu samtök fatlaðs fólks kröfuna um skýra tjáningu. Blindrafélagið og Öryrkjabandalag Íslands gagnrýndu í athugasemdum með lagabreytingunni að ,,skýr og afdráttarlaus tjáning” væri þröng og ströng skilgreining og ekki til þess fallin að ná markmiði lagabreytingarinnar. Sjálf skrifaði ég ásamt samstarfskonu í NPA miðstöðinni, þar sem ég starfaði á þessum tíma, umsögn um lagabreytinguna þar sem við tókum fram að um væri að ræða mjög loðið orðalag ,,sem má túlka með ýmsum hætti.

Fatlað fólk sem þarf ekki aðstoð við ákvörðunartöku (og þ.a.l. vottun frá réttindagæslumanni), hvort sem það er með þroskahömlun eða ekki, tjáir sig misjafnlega líkt og sumt fólk sem þarf aðstoð við ákvörðunartöku. Sumir nota talað mál, aðrir tákn og svipbrigði og enn aðrir myndir eða tölvur. [...] Við óttumst, sökum þeirra miklu fordóma sem við upplifum í samfélaginu á hverjum degi, að þessi ákveðni hópur fatlaðs fólks, sem tjáir sig ,,óhefðbundið" geti orðið fyrir barðinu á þessu ákvæði”.

Er þessi gagnrýni í fullu samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur einungis undirritað en ekki fullgilt. Sú staðreynd er óþolandi í samfélagi þar sem fatlað fólk upplifir daglega mismunun og getur ekki nýtt samninginn með beinum hætti til þess að vernda rétt sinn. Hins vegar er undirritun krafa á að ríkið geri ekki neitt sem gengur gegn samningnum. Í 29. grein um þátttöku í stjórnmálum og opinberu lífi kemur fram að fötluðu fólki skuli tryggð kosningaaðferð, kosningaaðstaða og kjörgögn sem eru við hæfi, aðskilin, aðgengileg og auðnotuð.

Ljóst er fatlað fólk býr ekki við þann rétt á Íslandi. Þar kemur einnig fram að það skuli geta valið að ,,njóta aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði”. Það gildir augljóslega bara fyrir okkur sem getum talað með þeim hætti sem ófötluðu samfélagi þóknast. Í 21. grein samningsins er fjallað um rétt fatlaðs fólks til tjáningar- og skoðanafrelsis og aðgangs að upplýsingum. Þar kemur fram að fötluðu fólki skuli tryggt að geta ,,nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þar með talið frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hjálp hvers kyns samskiptamiðla að eigin vali”. Ekki er farið eftir því heldur.

Símtalið á kjördag

Maðurinn í símanum á kjördag var líklega ekki meðvitaður um að hann hefði þurft vottorð frá réttindagæslumanni. Ég vissi það ekki sjálf þrátt fyrir að vera nokkuð vel að mér í lagaumhverfi sem snýr að fötluðu fólki. Eina sem ég gat gert var að hvetja hann til þess að taka málið lengra fyrir hönd föður síns, lofa að ég myndi skrifa um þetta símtal og beita mér áfram fyrir frekari breytingum á kosningalögum.

Þrátt fyrir að verða mjög sorgmædd langt fram eftir degi var ég þakklát fyrir símtalið því það minnti mig á að þó að ekki sé lengur brotið á mér þegar kemur kosningum er brotið á fólki með öðruvísi skerðingar. Með þessari grein vil ég skora á þingmenn í öllum flokkum til þess að vera búnir að vinna saman að heildarendurskoðun á kosningalögum fyrir næstu kosningar sem samræmist Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Sú vinna verður að vera í nánu samráði við fatlað fólk og samtök þeirra með það að markmiði að fundin verði leið sem mismunar ekki fötluðu fólki á grundvelli ólíkra skerðinga. Eina leiðin til þess er hlusta á fatlað fólk sjálft og fylgja fordæmum erlendis frá sem fötluðu fólki sjálfu finnst hafa gefist vel.

Óhjákvæmilega breytist líf fólks að einhverju leiti við það að fá parkinson eða aðra skerðingu. Það breytist þó aðallega af því að samfélagið fer í uppnám, fordæmir, bregst við á grundvelli staðalímynda, mótar umhverfið þannig að það útilokar fólkið og setur lög sem brjóta mannréttindi þess. Manneskjan hverfur þó ekki né skoðanir hennar, hugsanir, vilji og ætlanir.

Þó líkaminn breytist eða möguleikar manneskjunnar til þess að tjá sig þýðir það ekki að hún sé ekki lengur til. Það þýðir bara að það þarf að fara aðrar leiðir til þess að tryggja réttindi og gefa manneskjunni þannig tækifæri til þess að uppfylla skyldur sínar og njóta lífsins. Hluti af því er að geta mætt á kjörstað án þess að upplifa niðurlægingu og ónærgætni og greitt atkvæði sitt í einrúmi með aðstoð frá fólki sem skilur tjáningarleiðir hennar. Það eru mannréttindi sem viðurkennd hafa verið á alþjóðavísu og íslenskum stjórnvöldum ber að framfylgja.




Skoðun

Sjá meira


×