Nýherji hf. hefur gengið frá sölu á starfsemi Tækjaleigu Nýherja til Sonik Tækni ehf., sem tekur yfir reksturinn þann 15. júní nk en þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja.
„Nýherji hefur að undanförnu unnið að endurskilgreiningu á megináherslum félagsins sem fela í sér skarpari sýn á starfsemina. Salan á Tækjaleigunni til Sonik Tækni er í takt við nýjar áherslur Nýherja, sem er að efla þjónustu- og lausnaframboð í upplýsingatækni fyrir íslensk fyrirtæki. Við væntum þess að starfsemi Sonik Tækni muni vaxa og dafna á næstu misserum og hlökkum til góðs samstarfs í sameiginlegum verkefnum,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja.
Tækjaleiga Nýherja hefur um árabil sérhæft sig í tækniþjónustu við hvers konar viðburði, t.a.m. tónleika, ráðstefnur, o.fl. Nýherji mun frá og með 15. júní annast rekstur á miðlægum tölvubúnaði fyrir Sonik Tækni.
Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að kaupverðið sé trúnaðarmál en salan hefur óveruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu Nýherja á árinu.

