Skoðun

Ísland best í heimi?

Soffía Sigurgeirsdóttir skrifar
UN Women leggur ríka áherslu á að fjárfesta í valdeflingu kvenna á vinnumarkaði um heim allan. Það hefur bein áhrif á efnahags- og félagslega stöðu kvenna. Ísland trónir í efsta sæti á lista alþjóða efnahagsráðsins, World Economic Forum, hvað varðar jafnrétti karla og kvenna.

Það er ljóst að Ísland er fyrirmynd annarra ríkja í jafnréttismálum. Þrátt fyrir þennan góðan árangur þarf að stuðla að auknu jafnrétti á vinnumarkaði hérlendis. Lögin um kvóta í stjórnum fyrirtækja hefur ekki skilað sér sem skildi niður í fyrirtækin sjálf. Árangursríkasta leiðin til aukins jafnréttis á vinnumarkaði er þegar að margir aðilar á vinnumarkaði koma saman til að stuðla að framförum og sýna samfélagsábyrgð í verki.

Á þann hátt á sér stað jákvæð framþróun. Það eru mörg alþjóðleg átaksverkefni og sáttmálar sem miða að þessu markmiði, þar með talið Jafnréttissáttmáli UN Women og Global Compact, Kvennasáttmálinn (CEDAW) og hérlendis er Jafnlaunavottunin jafnframt góð leið fyrir fyrirtæki að efla jafnrétti innan fyrirtækis. Ávinningur fyrirtækja að stuðla að auknu jafnrétti er mikill bæði viðskiptalega og samfélagslega.

Það er mikið ánægjuefni fyrir UN Women á Íslandi að standa að Hvatningarverðlaunum jafnréttismála ásamt Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, Samtökum atvinnulífsins og Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Markmiðið með verðlaununum er að beina athygli að þeim fyrirtækjum sem hafa jafnrétti að leiðarljósi í sinni starfsemi og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki að gera slíkt hið sama.

Tekið er á móti tilnefningum til 21.maí og verða verðlaunin afhent í fyrsta sinn þann 27. maí næstkomandi á ráðstefnunni „Aukið jafnrétti – Aukin hagsæld“. Horft er til þeirra fyrirtækja sem hafa stuðlað að auknum möguleikum beggja kynja til starfsframa, jöfnum launum kynjanna, jöfnum hlutföllum kynjanna í stjórnendastöðum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið. Jákvæð umfjöllun, almenn hvatning og vitundarvakning um jafnrétti á vinnumarkaði skiptir sköpum hvað varðar aukið jafnrétti karla og kvenna á vinnumarkaði.




Skoðun

Sjá meira


×