Skoðun

Björt framtíðarsýn fyrir lifandi og skemmtilegan bæ

Anna Lára Steindal skrifar
Við í Bjartri framtíð á Akranesi leggjum áherslu að á skapa hlýlegan bæjarbrag sem umgjörð um lifandi, skemmtilegt og framkvæmdasamt mannlíf. Við viljum horfa til framtíðar og forðast skammtímalausnir sem eru jú skammgóður vermir. Við setjum markið hátt því með samhentu átaki getum við svo auðveldlega gert Akranes að bæjarfélagi sem alls konar fólk með alls konar menntun, þekkingu, reynslu, hæfileika og kunnáttu langar til og nýtur þess að búa í.

Til þess að ná þessu markmiði verðum við að halda áfram að veita framúrskarandi þjónustu í skólamálum, gera enn betur í málefnum fatlaðra, nýta betur tækifæri til útivistar, leggja meiri áherslu á vistvænt samfélag og fegra og bæta umhverfið. Við þurfum að hlúa vel að öldruðum (við viljum jú endilega að fólkið sem ákveður að búa hér vilji og geti vera hér áfram þegar aldurinn færist yfir) og almennt tryggja að öllum líði vel, njóti virðingar og jafnræðis og taki virkan þátt í samfélaginu. Við trúum því að mikilvægasti réttur hverrar manneskju sé að fá að taka sjálfstæðar ákvarðanir um líf sittt og tilveru – þess vegna eiga bæjaryfirvöld að hlusta á raddir allra og virkja sem flesta til beinnar þátttöku í samfélaginu .


Eitt af mikilvægusut verkefnunum sem bíður okkar er að auka fjölbreytni í atvinnulífi því næg atvinna og góðar tekjur fyrirtækja og fólks er forsenda þess að kröftugt mannlíf blómstri á Skaganum og að bæjarfélagið hafi nægar tekjur til að veita íbúnum góða þjónustu. Við megum ekki setja öll eggin okkar í sömu körfuna og veðja bara á eina eða tvær eða þrjár stórar atvinnugreinar. Fjölbreytni er lykilatriði.

Í grunninn er þetta ekki flókið: Því fleiri sem búa á Akranesi og hafa góða atvinnu, því fleiri greiða útsvar á Akranesi og því digrari verða okkar sameiginlegu sjóðir. Þar með getum við ráðist í fleiri verkefni til að bæta tilveru okkar, umhverfi og samfélag. Þess vegna þurfum við að styðja vel við þau fyrirtæki sem eru nú þegar að störfum, vinna vel með þeim sem hafa áhuga á að hefja einhvers konar starfsemi á Akranesi og efla og styðja frumkvöðla, sprotafyrirtæki og skapandi greinar sem miða að því að búa til fleiri störf. Á Sementsreitnum gætum við til dæmis lagt grunn að suðupotti hugmynda og skapandi atvinnulífs með því að veita sprotafyrirtækjum og alskonar frumkvöðlum hentuga aðstöðu. Með viðmóti, góðum hugmyndum og jákvæðni geta forsvarsmenn bæjarins unnið að því að skapa frjóan jarðveg fyrir atvinnulífið.


Til að ná þessu markmiðum verðum við að vera áræðin og ástunda það sem hefur verið kallað skapandi stjórnsýsla. Nýjir tímar krefjast nýrra lausna. Það þýðir að við erum reiðubúin til þess að „horfa út fyrir boxið“. Vinna með duglegu fólki sem hefur snjallar lausnir og vera ekki bundin af „allt var svo gott í gamla daga“ hugsunarhættinum. Möguleikarnir og tækifærin eru svo sannarlega til staðar! Við verðum, bara að hafa dug og þor til að grípa þessi tækifæri. Björt framtíð hefur jákvæðni dug og þor – þess vegna erum við svo góður valkostur. Vertu í liði með okkur og settu x við æ í maí!




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×