Skoðun

Hættuminni sprautunálar og neyslurými, já takk!

Eva Guðrún Gunnbjörnsdóttir skrifar
Síðastliðinn vetur var aðbúnaður utangarðsfólks töluvert í umræðunni. Þá var m.a. rætt plássleysi í gistiskýlum Reykjavíkurborgar og um mikilvægi dreifingu hreinna sprautnála. Sumum finnst þessi málaflokkur ekki skipta máli en hann gerir það. Með aðgerðum í þessum málaflokki er unnið á móti dreifingu sjúkdóma og gífurlega háar fjárhæðir sparast þegar til framtíðar er litið.

Við í Dögun í Reykjavík viljum að fólk sem neytir fíkniefna í æð hafi ótakmarkað aðgengi að hreinum sprautunálum í Reykjavík. Dögun í Reykjavík vill einnig panta til landsins sprautur sem eru þannig hannaðar að nálin fellur inn í sprautuna að notkun lokinni. Þannig er hægt að sporna við deilingu sprautunála, smithætta minnkar sem og hætta af völdum förgunar nála á víðavangi. Við í Dögun viljum einnig að förgunarboxum verði dreift þannig að fólk sem notar fíkniefni í æð geti fargað notuðum sprautum í þar til gerð box. Það hefur sýnt sig og sannað að þetta er gerlegt og að margir fíkniefnaneytendur axla þessa ábyrgð samviskusamlega. Dögun í Reykjavík mun ávallt hvetja fólk til ábyrgðar á eigin heilsufari.

Dögun í Reykjavík vill einnig koma upp neyslurými. Víða um heim er komin góð reynsla af slíkri aðstöðu. Tekið skal fram að fólk sem leitar í slík rými er ekki nýbyrjað í fíkniefnaneyslu heldur langt leitt. Í slíku neyslurými verði heilbrigðisstarfsfólk sem geti hlúð að þeim einstaklingum er þangað leita. Neyslurými eykur öryggi margra sem munu einnig geta fengið aðstoð við að sprauta sig óski þeir þess, því margir valda sjálfum sér skaða er þeir sprauta sig. Einnig verður hægt að sækja þangað lyf, s.s. sýklalyf, eða aðra heilbrigðisþjónustu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin styður eindregið við skaðaminnkandi aðferðarfræði og úrræði.

Mannréttindaframboð Dögunar þarf á þínu atkvæði að halda til þess að fulltrúar Dögunar í Reykjavík geti unnið að þessum mikilvæga málstað innan Reykjavíkurborgar, X-T.




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×