Viðskipti innlent

Framkvæmdir við kísilver í Helguvík hefjast á morgun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Útlitsteikning af kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík.
Útlitsteikning af kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík. Grafík/United Silicon.
Framkvæmdir við kísilmálmverksmiðju United Silicon hefjast í Helguvík á morgun en allir lykilsamningar um verkefnið eru nú í höfn. Allt að 250 störf skapast á framkvæmdatíma og sjötíu stöðugildi verða í fyrirtækinu þegar rekstur hefst eftir tvö ár.

Verksmiðjan rís á iðnaðarlóð við höfnina í Helguvík en undirbúningur verkefnisins hefur farið furðuhljótt í ljósi þess hversu stórt það er. Umhverfismat var staðfest fyrir ári en það var í marsmánuði sem Landsvirkjun skýrði frá því að hún hefði gert orkusölusamning við United Silicon. Knattspyrnukappinn Auðun Helgason kom þá fram fyrir hönd fjárfestanna, sem eru bæði innlendir og erlendir.

Ráðamönnum United Silicon liggur á að hefja framkvæmdir í Helguvík. Að sögn Auðuns, sem er starfandi framkvæmdastjóri, er þegar búið að gera sölusamninga um stóran hluta af framleiðslunni. Verksmiðjan þurfi því að vera komin í rekstur sumarið 2016, eftir tvö ár.

Kísillmálmverksmiðjan verður við höfnina í Helguvík.Grafík/United Silicon.
United Silicon hefur fengið ÍAV-verktaka til að hefja verkið og er gert ráð fyrir að fyrstu vinnuvélarnar komi á svæðið á morgun. Kísilmálmverksmiðjan verður byggð upp í þremur áföngum og verður sá fyrsti með 22 þúsund tonna framleiðslugetu á ári og mun kosta um tólf milljarða króna, að sögn Auðuns. Orkuþörfin verður 35 megavött. Í endanlegri stærð er áætlað að verksmiðjan geti framleitt allt að 100 þúsund tonn af kísilmálmi á ári. 

Samkvæmt upplýsingum frá ráðamönnum United Silicon verður endanlegum fyrirvörum í samningum um verkið ekki aflétt fyrr en í lok næsta mánaðar. Allir lykilsamningar eru þó í höfn, þar á meðal um orkukaup og fjármögnun, og ekki er talið neitt því til fyrirstöðu að hefjast handa. 

Áætlað er að milli 200 og 250 manns verði að störfum við smíði verksmiðjunnar næstu tvö árin en eftir að reksturinn hefst verða þar sjötíu stöðugildi, - í fyrsta áfanga hennar.


Tengdar fréttir

Tvö kísilver og virkjun ákveðin á næstu vikum

Ákvarðanir um nærri eitthundrað milljarða króna framkvæmdir, þær mestu á Íslandi frá því stórframkvæmdunum lauk á Austurlandi, gætu legið fyrir í næsta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×