Skoðun

Grunnskólinn – Menntastofnun eða geymsla?

Sigrún Jónatansdóttir skrifar
Líklega hafa allir einhverja skoðun á skólum landsins, öll höfum við okkar reynslu, bæði sem nemendur, foreldrar, systkini, frændur, frænkur, ömmur og afar. Reynslan af skólagöngunni er þó æði misjöfn, einhverjir náðu góðum tökum á náminu á meðan öðrum gekk ekki eins vel. Sumum leið vel en öðrum illa. Sem betur fer hefur mikið breyst í skólamálum síðustu árin og áratugi, mun meiri skilningur er á erfiðleikum sem nemendur glíma við t.d. lesblindu og öðrum námsörðugleikum, betri almenn þekking á fötlunum auk þess sem afburðanemendum er betur sinnt. Líðan nemenda og samskipti skipa mun stærri sess en áður og reynt er að byggja upp örugga og sjálfstæða einstaklinga.

Við menntun grunnskólakennara er lögð áhersla á að búa þá undir að mæta fjölbreyttum hópi nemenda úti í skólunum. Kröfur um menntun hafa smám saman aukist og draga má þá sanngjörnu ályktun að með lengra námi og auknu vettvangsnámi fáist öflugri kennarar ferskir inn í skólana að loknu námi.

Síðustu ár hafa skólarnir verið vel mannaðir af grunnskólakennurum sem hafa menntun og réttindi til kennslu. En það er ekki svo ýkja langt síðan að erfitt var að fá réttindakennara til starfa og mikið var um leiðbeinendur. Leiðbeinendur í skólum eru yfirleitt yndislegt fólk, barngott og kraftmiklir starfsmenn enda vinna þeir í krefjandi umhverfi. Það sem leiðbeinendur hafa hins vegar ekki er sérþekking á uppeldis – og kennslufræði. Það er eitt að kunna eitthvað en annað að vita hvernig hægt sé að miðla því til barna með ólíkar þarfir.

Þegar ég fer með bílinn minn á verkstæði vil ég að sá sem geri við hann sé bifvélavirki en ekki félagsráðgjafi, ég vil að læknarnir sem sinna mér ef ég veikist séu læknar en ekki flugvirkjar. Er óeðlilegt að gera þá kröfu að þeir sem kenna börnunum okkar séu grunnskólakennarar en ekki leiðbeinendur með annars konar eða enga menntun í faginu? Reynslan er dýrmæt og margir geta náð góðum tökum á nýju starfi með því að prófa sig áfram en er það í boði þegar um er að ræða viðkvæma einstaklinga sem mótast mikið á grunnskólaárunum? Mistök á þessum vettvangi geta verið ansi dýrkeypt fyrir nemendur okkar.

Grunnskólakennarar hafa verið samningslausir í tvö ár, margir eru orðnir langþreyttir á kjörum sem duga ekki til framfærslu. Háskólarnir reyna að hvetja fólk til að koma í kennaranámið en undirtektirnar eru dræmar, raunverulegur skortur á menntuðum kennurum er nú þegar yfirvofandi þar sem meðalaldur grunnskólakennara með réttindi er mjög hár og endurnýjun í stéttinni ekki næg. Við þetta bætist nú að margir sjá sér ekki lengur fært að starfa þar sem hjartað slær og eru farnir að skoða atvinnuauglýsingarnar. Margir spyrja sig hvort sé mikilvægara – starfsvettvangurinn eða að geta boðið sjálfum sér og börnunum sínum gott og áhyggjulaust líf. Líklega eru margir til í að fórna starfsánægjunni fyrir ein mánaðamót þar sem fjármálin eru ekki í járnum.

Því spyr ég þig, hvort sem þú ert nemandi, fyrrverandi nemandi, aðstandandi nemanda, einstaklingur í samninganefnd sveitarfélaga eða menntamálaráðherra, hver vilt þú að sjái um kennslu í grunnskólum? Viltu sjá faglegt starf þar sem unnið er að raunhæfum og krefjandi markmiðum þar sem hver nemandi er einstakur og honum sinnt? Viltu geta gert þá kröfu að sá sem starfi við kennslu skilji þarfir hvers nemanda og geti mætt þeim? Eða viltu að grunnskólar landsins séu geymslur þar sem foreldrar geta skilið börnin eftir á meðan þeir fara í vinnuna?




Skoðun

Sjá meira


×