Skoðun

Hefur ekkert gerst í barneignaþjónustu í heila öld??

Áslaug Íris Valsdóttir skrifar
Þessa dagana eru tvenn tímamót í mínu ljósmóður lífi. Félagið mitt Ljósmæðrafélag Íslands varð 95 ára 2. maí s.l. sem gerir það eitt af elstu starfandi stéttarfélögum landsins og þar að auki það eina sem eingöngu er skipað konum og í dag 5. maí er alþjóðadagur ljósmæðra.

Á tímamótum lætur maður oft hugann reika og ég fór að hugsa um stöðu ljósmæðra í dag og hvaða breytingar hafa orðið síðustu hundrað ár. Eitt af því sem augljóslega hefur breyst er menntun ljósmæðra.

Einu sinni tók námið sex mánuði en hefur lengst allverulega og tekur nú sex ár í háskóla að fá starfsréttindi sem ljósmóðir.

1914 voru árslaun ljósmæðra 420 krónur en sótara 2000 krónur, þessi launamunur kynja hefur haldið sér, ekki alveg í óbreyttu hlutfalli en munurinn er enn til staðar.

Fyrir hundrað árum voru Íslendingar tæp 88 þús. og eignuðust 2.338 börn. Nú eru Íslendingar yfir þrjúhundruð þúsund og eignast um 4.600 börn á ári.

Sem sagt sumt hefur breyst og þróast eins og viðbúið var en það allsendis ótrúlega er þegar tölur eru skoðaðar að útskrifaður fjöldi ljósmæðra er sá sami.

Síðustu hundrað ár hafa verið útskrifaðar um það bil 8-13 ljósmæður árlega og hefur fjöldinn haldist stöðugur. Til samanburðar má nefna að árið 1914 útskrifuðust 5 læknar en árið 2014 munu útskrifast um 50 læknar.

Fyrstu þroskaþjálfarnir útskrifast 1960 þá 4 en núna útskrifast um 40-60 á ári. Hvernig má þetta vera? Hvernig stendur á því að það er aukin þörf fyrir nánast allar aðrar stéttir fagfólks? Það eru helmingi fleiri börn sem fæðast núna.

Vandamálin sem hrjá barnshafandi konur eru líka fleiri og öðruvísi heldur en 1914. Nú snýst vandinn um offitu, sykursýki, fíkn, geðrænan vanda, tungumála erfiðleika vegna nýbúa auk menningarmunar og svo ýmiskonar félagslegan vanda svo að fátt eitt sé talið.

Margar barnshafandi konur glíma við flókin og erfið vandamál sem ljósmóðir þarf að vera fær um greina og koma í réttan farveg. EN það ótrúlega gerist ennþá, þrátt fyrir þennan litla fjölda útskrifaðra ljósmæðra, veikari mæður og helmingi fleiri börn sem fæðast þá eru samt til atvinnulausar ljósmæður og aðrar sem ekki fá það vinnuhlutfall sem þær þurfa og vilja.

Í mínum huga þýðir þetta að ekki sé nægjanlega vel mannað ljósmæðrum í heilbrigðiskerfinu og að sú auðlind sem ljósmæður eru sé ekki nýtt að fullu við störf þar sem þekking þeirra gæti komið að notum. Ljósmæður eru vel menntuð stétt með góða og víðtæka menntun. Þekking okkar nýtist því víða og koma ýmis forvarnarstörf fyrst upp í hugann.

Það er þekkt að mikið er leitað til sérfræðilækna á Íslandi, konur leita til sérfræðings jafnvel með mál sem falla undir grunnþjónustu og forvarnir og þar með erum við að greiða fyrir óþarflega dýra og flókna þjónustu.

Heimilislækna skortur er alþekktur vandi, gætu ljósmæður ekki komið þar inn og sinnt þeim þáttum sem snúa að kynheilbrigði, getnaðarvarnaráðgjöf og heilbrigði kvenna?

Er ekki mál til komið að þeir sem stjórna heilbrigðismálum fari að nýta þá auðlind sem vel menntaðar ljósmæður eru?

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×