Skoðun

Opið bréf til stjórnarmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefndar

Hulda María Magnúsdóttir skrifar
Kæru stjórnarmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefndar sveitarfélaga. Mig langar til að ítreka tilboð sem ég gerði ykkur í grein hér á Vísi fyrir skömmu.

Þrátt fyrir yfir þúsund deilingar má vera að greinin hafi farið framhjá ykkur. Hún hét Reiða kennslukonan en slíkur titill vekur kannski ekki áhuga ykkar.

Ég er 34 ára og með sex ára menntun að baki. Í umsjónarbekknum mínum eru 20 börn svo ég flokkast sem umsjónarkennari 2 (aukaflokkur), ég fæ auka launaflokk fyrir endurmenntun og annan fyrir framhaldsskólaréttindi.

Og hvað fæ ég nú eiginlega í grunnlaun með alla þessa aukaflokka og þessa miklu menntun? Jú, heilar 331.000 krónur. Þegar ég nefni þessa launatölu verður undantekningalaust smá þögn áður en menn treysta sér til að tala áfram við mig..

Það er nefnilega þannig að þó að enginn haldi að grunnskólakennarar séu hálaunastétt þá gerir fólk sér heldur ekki grein fyrir því hversu lág launin eru. Við erum að tala um starf þar sem krafist er 5 ára háskólamenntunar. Hvað er krafist mikillar menntunar svo maður geti boðið sig fram til sveitarstjórna? Bara svona pæling, vona að þið takið spurningunni ekki illa.

Svo er það þetta með bindingu vinnutímans. Ég hef heyrt fólk fullyrða að kominn sé tími á að kennarar fara að vinna eins og annað fólk. Og það virðist ykkur afar hugleikið að halda okkur í skólunum frá 8 til 16 eða 17. Hins vegar hef ég ekki enn séð neinn tala um þetta samhliða faglegum rökum, að rökstyðja þessar hugmyndir (svona eins og ég er alltaf að reyna að ítreka við unglingana sem ég kenni - að rökstyðja mál sitt). Ég væri vel til í að vinna eins og „annað fólk“.

Með því geri ég ráð fyrir að sé átt við þá sem eru í hefðbundinni dagvinnu. Fólk sem fær kaffitímann sinn sama hvað, þarf sjaldan að taka vinnuna með sér heim og fær borgað ef það vinnur eitthvað fram yfir „hefðbundinn“ vinnutíma. Þannig er það sannarlega ekki hjá mér, ég fer í kaffi þegar bjallan hringir út og ef ég er svo óheppin að nemandi kemur að tala við mig eða foreldri hringir á þeim tíma þá missi ég bara kaffitímann minn því þegar bjallan hringir næst þarf ég líka að fara inn, svöng eða ekki.

Það heyrir til undantekninga að ég sé ekki að sinna vinnunni heima og að hluta vel ég að hafa það þannig. Öll þessi brjálæðislega löngu sumarfrí okkar kennara (vinsamlega lesið þetta með mikilli kaldhæðni) koma nefnilega til af því að við eigum að vinna tæpa 43 tíma á viku (hefðbundin vinnuvika á Íslandi er 40 klukkustundir frá mánudegi til föstudags), þannig vinnum við af okkur sumarfríin.

Kennarar eru hins vegar að meðaltali að vinna mun meira en þetta og allt upp undir 50 tíma á viku en fá þó alltaf bara borgað fyrir 43 tímana. En þetta vitið þið auðvitað allt saman kæru stjórnarmenn enda var könnunin, þar sem þetta kom fram, á vegum SÍS og FG. Ágætt samt að láta minna sig á svona stundum, þetta vill gleymast.

Þá komum við aftur að tilboðinu sem ég minntist á í byrjun, ég bauð ykkur nefnilega að koma og skipta við mig í eins og tvær vikur eða svo. Ég geri nú ráð fyrir að tilboðið hafi ekki farið framhjá ykkur, miklu frekar að þið séuð bara enn að ákveða hvert ykkar fær að vera svo heppið að koma og kenna hópunum mínum. Í staðinn skal ég koma og vinna ykkar vinnu. Auðvitað myndum við líka skipta á launum, það gæti hugsanlega rétt minn fjárhag ögn af (hér gef ég mér að þið séuð með aðeins hærri grunnlaun en ég).

Það verður reyndar að viðurkennast að ég hef ákaflega litla hugmynd um hvað felst í því að vinna ykkar starf en ég er fljót að læra og hversu erfitt getur þetta verið?

Labbar maður ekki bara inn og græjar þetta? Það er að minnsta kosti sú tilfinning sem ég hef um viðhorf ykkar gagnvart mínu starfi, að þið hafið líka frekar litla hugmynd um hvað felst því sem kennarar gera á gólfinu daglega, kannski er bara tímabært að mæta á staðinn og kynna sér hvað raunverulega fer fram í skólum landsins, þá kannski skiljið þið hvers vegna kennarar eru ákveðnir í að krefjast löngu tímabærrar leiðréttingar á launum! Hlakka til að fá aragrúa af tilboðum í tölvupósti frá ykkur, get auðveldlega komið ykkur öllum að í skólum landsins!

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×