Skoðun

Húrra fyrir einangrun

Árdís Steinarsdóttir skrifar
Ég hef oft legið andvaka og hugsað með mér hvernig ég ætti að lifa af zombie-faraldur. Hvaða dósamatur endist lengst og hvaða vopn leynast heima hjá mér. Oftast hefur mér tekist að sannfæra mig um að ég sé betur á mig komin en megnið af heimsbyggðinni. Ég bý nú á Íslandi. Ísland er svo einangrað. Við erum líka sæmilega vör um okkur gagnvart öllum útlendingum og þolum illa flugdólga. Ef einhver viðskotaillur farþegi tæki upp á því að reyna að bíta aðra farþega á leiðinni hingað væri hann sennilega bara teipaður við stólinn sinn.

Við þá tilhugsun róast ég oftast og næ því að festa svefn.

Í dag tók ég próf á internetinu sem sagði mér hversu lengi ég myndi lifa ef slíkur faraldur breiddist út. 77 dagar. Það sló mig strax út af laginu þar sem mér er einstaklega illa við samhverfar tölur.

Ég þurfti þessa sjálfskoðun á hæfileikum mínum í zombie-faraldri til að átta mig á að ég treysti ekki ríkisstjórninni. Ekki heldur vannærðum ríkisfjölmiðlinum. Ekki einu sinni til að segja mér að zombie-faraldur sé skollinn á, ekki frekar en kreppan 2008. Ekki fyrr en allt er um seinan og amma er að borða Bjössa frænda í stofunni.

Stjórnarflokkarnir myndu útrýma hver öðrum á innan við 77 dögum. Þeir treysta ekki hver öðrum til að taka ákvarðanir fyrir landið þegar svona stendur á.

Fjármálaráðherrann myndi segja Katrínu Júlíusdóttur vera að æsa sig því hún væri smituð. „Róaðu þig Katrín. Ekki bíta mig.“  

Kannski ég flýi til Möltu. Þá er ég að minnsta kosti laus við Vigdísi Hauksdóttur.




Skoðun

Sjá meira


×