Innlent

Íslenskir álfar svöruðu flöskuskeyti ensks drengs

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá Billy með póstkortið íslenska Þessi mynd birtist i The Recorder.
Hér má sjá Billy með póstkortið íslenska Þessi mynd birtist i The Recorder.
„Þetta eykur trú manns á mannkyninu,“ segir móðir sex ára drengs sem fékk svar frá Íslandi við flöskuskeyti sem hann setti í sjóinn frá Englandi í síðasta mánuði.

Hinn sex ára Billy Haggis, frá Essex-sýslu, fékk víst póstkort frá íslenskum álfum. Á póstkortinu sögðu álfarnir frá því hvernig hvalur hafi borið flöskuskeytið til þeirra.

Enski vefmiðilinn The Recorder, greinir frá þessari skemmtilegu sögu.

„Þetta er dásamlegt,“ segir Kelly Haggis, móðir drengsins og heldur áfram: „Sonur minn er einungis sex ára og gerir sér ekki fulla grein fyrir því hvað þetta er yndislegt.“

Billy var staddur á strönd á suðurhluta Englands ásamt fjölskyldu sinni um miðjan febrúar. Hann ákvað að senda flöskuskeyti, til þess að stytta sér stundir. Svarið frá Íslandi barst svo síðasta fimmtudag.

Að sögn móðurinnar var Billy himinlifandi og gat ekki beðið eftir því að sýna skólafélögum sínum þetta.

Hugsanlega fær Billy fleiri svör við flöskuskeyti sínu. „Álfarnir setu það aftur í sjóinn, þannig að einhver annar gæti fundið það. Enginn veit hvar það gæti endað,“ segir móðir hans að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×