Innlent

Herra Prins Póló er frá Íslandi

Birta Björnsdóttir skrifar
Davíð Freyr Þórunnarson fer með aðalhlutverkið í nýrri auglýsingaherferð fyrir Prince Polo. En af hverju ætli Ísland hafi orðið fyrir valinu til að auglýsa pólskt súkkulaði?

„Prince Polo er jafn vinsælt á Íslandi og í Póllandi, ef ekki vinsælla. Þeir vildu styrkja þessi tengsl í markaðsherferðinni sinni," segir Davíð.

Í auglýsingunum fer hann með hlutverk Gunnars, íslensks manns sem fer til Póllands eftir að hann kemst að því að Prince Polo er alls ekki íslenskt súkkulaði.

„Hann ákveður að fara til Póllands og kynna sér einkenni pólsku þjóðarinnar sem endurspeglast í súkkulaðinu," segir Davíð.

Auglýsingaherferðin er nú komin á fullt og ýmsir viðburðir henni tengdir framundan. Davíð segist þó enn geta gengið óáreittur um götur Póllands.

„Já alveg óáreittur, en ég finn vissulega fyrir því að fólk horfir á mig. Stundum lít ég á fólk sem er þá að horfa á mig og greinilega að senda skilaboð á vini og kunningja. Það er svolítið fyndið."

Davíð segir það koma mörgum á óvart að Prince Polo sé í raun frá Póllandi, súkkulaðið hafi verið svo lengi hluti af matarmenningu íslensku þjóðarinnar.

„Þetta var þannig að 1955 ákvað heildsalinn Ásbjörn Ólafsson að flytja inn þetta súkkulaði, en gat það ekki vegna tollalaga. Það mátti ekki flytja erlent súkulaði inn til landsins, það mátti ekki spilla fyrir íslenskri framleiðslu. Ásbjörn fór svolítið framhjá þessum lögum og flutti Prince Polo inn sem kex. Þetta var því eina erlenda súkkulaðið sem var í boði hér á landi í ein 20 ár. Og kannski þessvegna var það svolítið sérstakt," segir Davíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×