Skoðun

Kjóstu og hafðu áhrif

Ingibjörg Ósk Birgisdóttir skrifar
Ég hef setið í stjórn VR síðastliðin fjögur ár. Sá tími hefur verið sviptingasamur og hafa formennirnir verið þrír talsins á þeim skamma tíma. Margir stjórnarmenn VR hafa líka staldrað of stutt við. Á það ekki síst við um margar öflugar konur sem hafa ekki sóst eftir endurkjöri.

Þessi mikla endurnýjun stjórnarmanna er of hröð. Þótt vitanlega sé gott og hollt í félagsstarfi að fá reglulega inn nýtt fólk með nýjar og ferskar hugmyndir þá má reynsla sem fólk öðlast og tekur töluverðan tíma að afla sér ekki glatast alveg svona hratt.

Félagsmenn í stéttarfélögum gera réttilega kröfur til forystumanna en á stundum er gagnrýnin of hörð. Þetta leiðir til þess að fólk veigrar sér við að gefa kost á sér til trúnaðarstarfa fyrir félögin – sem er slæmt því að eins og við vitum eru stéttarfélögin nauðsynlegur hluti samfélagsins – án þeirra gæti afrakstur baráttu vinnandi fólks fyrir bættum kjörum fljótlega orðið að engu.

Á stjórnarferli mínum í VR hefur mér verið treyst til að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið.

Skoðanaskipti innan launþegahreyfingarinnar eru lífleg og menn ekki á sama máli í einu og öllu frekar en annars staðar í þjóðfélaginu. Það má þó aldrei gleyma því að samstaða launafólks er langsterkasta baráttutækið og líklega það eina sem atvinnurekendur taka mark á í reynd og óttast.

Það hlýtur að vera eitt af markmiðum allra þeirra sem vinna í þágu VR að stuðla að því að félagsmenn geti verið stoltir af félagi sínu, að þeir geti óhikað treyst félaginu til að gæta réttinda sinna í hvívetna.

Ég gef að nýju kost á mér til stjórnarsetu af því að ég tel mig geta nýtt þá reynslu sem ég hef öðlast undanfarin fjögur ár til hagsbóta fyrir félagsmenn VR.

Rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna VR vegna kjörs í stjórn lýkur kl. 12 á hádegi föstudaginn 14. mars nk.

Um feril og áherslur frambjóðenda að þessu sinni má lesa í VR-blaðinu og á heimasíðu félagsins. Ég hvet alla félagsmenn til að nýta sér atkvæðisrétt sinn.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×