Viðskipti innlent

Ákvörðunin feli ekki í sér vantraust á seðlabankastjóra

Haraldur Guðmundsson skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, er nú á leið á alþjóðlegan fund seðlabankastjóra sem haldinn er á vegum Alþjóðagreiðslubankans í Sidney í Ástralíu.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, er nú á leið á alþjóðlegan fund seðlabankastjóra sem haldinn er á vegum Alþjóðagreiðslubankans í Sidney í Ástralíu.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, að ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að auglýsa stöðu seðlabankastjóra til umsóknar feli ekki í sér vantraust til Más. Ástæða ákvörðunarinnar sé sú að ríkisstjórnin hafi áhuga á að skoða breytingar á skipulagi yfirstjórnar bankans.

Þetta kemur fram í orðsendingu sem Már sendi starfsmönnum bankans í morgun. 

Már undirstrikar í orðsendingunni fyrri yfirlýsingu hans um að hann sé tilbúinn til að hefja nýtt tímabil sem seðlabankastjóri.

Í orðsendingunni segir orðrétt:

„Ég var skipaður í stöðu seðlabankastjóra til fimm ára frá og með 20. ágúst 2009. Í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, bar fjármála- og efnahagsráðherra að tilkynna mér fyrir lok dags á miðvikudag hvort hann hygðist auglýsa starfið laust til umsóknar, ella hefði skipan mín framlengst af sjálfu sér um fimm ár í viðbót. Á sama tíma og þessi orðsending birtist ykkur mun fjármála- og efnahagsráðuneytið senda frá sér tilkynningu þess efnis að mér hafi verið tilkynnt um að staða seðlabankastjóra verði auglýst laus til umsóknar.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur tjáð mér að þessi ákvörðun feli ekki í sér vantraust til mín og mun það koma fram opinberlega. Ástæða ákvörðunarinnar er sögð vera sú að ríkisstjórnin hefur áhuga á að skoða breytingar á skipulagi yfirstjórnar bankans. Af þeim sökum vilja stjórnvöld hafa meira svigrúm en þau telja að yrði til staðar ef fimm ára ráðning mín yrði ákveðin nú.

Á næstu vikum mun skýrast betur hvernig staðið verður að framhaldi þessa máls. Mér er tjáð að ekki standi til að ganga gegn sjálfstæði bankans né faglegri yfirstjórn. Ég hef áður lýst því yfir að ég er tilbúinn að hefja nýtt tímabil sem seðlabankastjóri og sú yfirlýsing stendur. Verði hins vegar gerðar lagabreytingar sem fela í sér að eðli starfsins breytist eða breytingar verða á umsóknarferlinu sjálfu verð ég að leggja nýtt mat á málið. Það verður því að bíða og sjá og ekki má gefa sér fyrirfram hvort slíkar breytingar eru til hins verra eða betra enda eru góð orð um að sérfræðiþekking Seðlabankans verði nýtt í því ferli sem framundan er.“


Tengdar fréttir

Vantraust milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans

Landsbankinn segir afstöðu forsætisráðherra til greiningar Seðlabankans veikja trú markaðsaðila, almennings og alþjóðlegra matsfyrirtækja á að hér takist að koma á langþráðum efnahagslegum stöðugleika og stefnu í stjórn efnahagsmála.

Einn seðlabankastjóri eða þrír?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist gera ráð fyrir því að til skoðunar sé fjölgun seðlabankastjóra. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir meiriháttar breytingar ekki fyrirhugaðar.

Fjölmörg tilefni til að breyta Seðlabankanum

Fjármálaráðherra vill ekki svara því hvort staða Más Guðmundssonar verði auglýst áður en frestur til þess rennur út á fimmtudag. Telur fjölmörg tilefni til að breyta lögum um bankann.

Sendi Seðlabankanum tóninn á Viðskiptaþingi

Forsætisráðherra sagðist ekki skilja hvers vegna Seðlabankinn legði meiri áherslu á að gera óumbeðna úttekt á áhrifum skuldaleiðréttingarinnar á meðan stjórnvöld biðu enn eftir greiningu á greiðslujöfnuði Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×