Formúla 1

Óánægja með eyðsluþak í Formúlunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Horner með þeim Sebastian Vettel og Mark Webber, ökuþórum Red Bull í fyrra.
Horner með þeim Sebastian Vettel og Mark Webber, ökuþórum Red Bull í fyrra. Vísir/Getty
Christian Horner, einn forráðamanna Red Bull í Formúlu 1, hefur bæst í hóp þeirra sem setja spurningamerki við áætlanir forráðamanna mótaraðarinnar um að setja liðum fjárhagslegar skorður.

Sam Michael hjá McLaren hefur einnig mótmælt þessum hugmyndum en miðað við umræður virðist sem að vilji sé til þess að kostnaður liðanna fari ekki yfir 200 milljónir dala hvert ár - um 23 milljarða króna.

Forráðamenn liðanna eru þó sammála um að skera þurfi niður kostnað liðanna sem taka þátt í Formúlunni en þeir Horner og Michael eru sammála um að eyðsluþak sé ekki rétta leiðin.

Red Bull, Ferrari og Mercedes eyða öll yfir 200 milljónum sterlingspunda ár hvert samkvæmt frétt BBC, um 38 milljörðum króna. Marussia og Catherham, sem náði lökustum árangri í fyrra, eru rekin fyrir minna en þriðjung þeirrar upphæðar.

Horner vill aðra nálgun á að jafna leikinn - aðra en að þvinga stærstu liðin til að fara undir ákveðna upphæð í eyðslunni. 200 milljónir dala væru hvort eð er langt frá því sem minnstu keppnisliðin hefðu til umráða.

„Það er þó algjör fásinna að halda því fram að við séum ósammála því að grípa þurfi til kostnaðarminnkandi aðgerða,“ sagði Horner við BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×