Handbolti

Spánverjar í basli með spræka Norðmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gedeon Guardiola skorar fyrir Spán í kvöld.
Gedeon Guardiola skorar fyrir Spán í kvöld. Nordic Photos / AFP
Heimsmeistarar Spánar eru með fullt hús stiga eftir sigur á Noregi, 27-25, í síðari leik dagsins í B-riðli. Norðmenn börðust hetjulega í leiknum en það dugði ekki til.

Spánverjar voru betri í fyrri hálfleik og með fjögurra marka forystu að honum loknum, 12-8. En Norðmenn mættu öflugir til leiks í þeim síðari og var staðan orðin 15-15 eftir tíu mínútna leik.

Noregur tók þá frumkvæðið í leiknum og komst yfir, 17-15. Ole Erevik átti frábæran dag í markinu og varði til að mynda þrjú víti og alls átján skot.

Spánverjar skoruðu aðeins fjögur mörk á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks en tóku svo við sér. Þeir þéttu varnarleikinn og refsuðu grimmt fyrir hver mistök Norðmanna.

Spánn náði yfirhöndinni á ný en Kent Robin Tönnesen minnkaði þó forystuna í eitt mark þegar lítið var eftir en heimsmeistararnir tryggðu sér tveggja marka sigur með marki á lokasekúndunum.

Það var allt annað að sjá til Norðmanna í kvöld en þeir spiluðu mun betur en gegn Íslandi á sunnudag. Bjarte Myrhol, sem átti erfitt uppdráttar um helgina, átti stórleik í kvöld og skoraði átta mörk fyrir Noreg. Espen Lie Hansen kom næstur með fimm mörk.

Jose Manuel Sierra varði sautján skot fyrir Spánverja en markahæstur í liðinu var hornamaðurinn Victor Tomas með tíu mörk. Jose Canelas skoraði átta og var valinn maður leiksins.

Spánn fer í milliriðlakeppnina með fullt hús stiga sigri liðið Ísland á fimmtudaginn. Noregur mætir Ungverjalandi á sama tíma og verður að vinna til að komast áfram á kostnað Ungverjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×