Innlent

107 ára dansari í Hafnarfirði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þrátt fyrir að Guðrún Jónsdóttir í Hafnarfirði verði 108 ára í sumar þá prjónar hún og les blöðin án gleraugna. Hún er ánægðust þegar hún fær ýsu í matinn og hún passaði forseta Íslands þegar hann var lítill.

Samkvæmt upplýsingum á Facebooksíðu um langlífi, sem Jónas Ragnarson heldur úti eru í dag 38 Íslendingar sem hafa náð 100 ára aldri eða eru eldri, 31 kona og 7 karlar. Á síðunni má m.a. sjá þennan lista yfir 10 elstu Íslendingana og þar eru birtar myndir af þeim fimm elstu, þar eru fjórar konur og einn karlmaður. Í öðru sæti er Hafnfirðingurinn Guðrún Jónsdóttir, sem dvelur nú á Sólvangi. Hún er fædd 9. ágúst 1906 og þrátt fyrir að hún verði 108 ára í sumar er hún ótrúlega hress, þó heyrnin sé alveg upp á tíu. Hún gengur um allt heimilið með göngugrind, les blöðin og prjónar.

Elsta barn Guðrúnar er að verða 78 ára en hún á alls fimm börn og afkomendurnir eru komnir vel yfir sjötíu. Guðrún er frá Auðkúlu í Arnarfirði. Maður hennar lést árið 1967.

Guðrún segist alltaf hafa verið heilsuhraust en þetta sé að verða gott, hún vilji helst ekki verða eldri. Henni líkar vel á Sólvangi og finnur ekki að neinu þar. Hrifnust er hún af ýsunni þegar fiskur er í matinn.

Guðrún passaði Hr. Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands þegar hann var lítill strákur á Vestfjörðurm.

Guðrún dansaði mikið á sínum yngri árum og að sjálfsögðu sagði hún já þegar fréttamaður bauð henni upp í dans á Sólvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×