Innlent

Náttúruverndarsamtök Íslands fordæma ákvörðun umhverfisráðherra

Mynd/Landsvirkjun
„Umhverfisráðherra hefur með ákvörðun sinni um breytingu á friðlýsingarskilmálum þeim sem Umhverfisstofnun vann fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum - í samræmi við gildandi náttúruverndaráætlun og í samræmi við rammaáætlun - enn á ný opnað fyrir að víðerni svæðisins vestan Þjórsár verði spillt, að hinir stórkostlegu fossar, Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss neðar í Þjórsá, verði eyðilagðir."

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Náttúruverndasamtökum Íslands í morgun en samtökin fordæma þá ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra, að breyta friðlýsingarskilmálum Þjórsárvera þannig að hægt verði að ráðast í gerð nýrrar útfærslu af Norðlingaölduveitu.

Í yfirlýsingunni segir jafnframt að ráðherra hafi með þessari ákvörðun rammaáætlun að engu. 

 

Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér að neðan.

Náttúruverndarsamtök Íslands fordæma ákvörðun umhverfisráðherra
Umhverfisráðherra hefur með ákvörðun sinni um breytingu á friðlýsingarskilmálum þeim sem Umhverfisstofnun vann fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum - í samræmi við gildandi náttúruverndaráætlun og í samræmi við rammaáætlun - enn á ný opnað fyrir að víðerni svæðisins vestan Þjórsár verði spillt, að hinir stórkostlegu fossar, Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss neðar í Þjórsá, verði eyðilagðir. Jafnframt er það svæði sem ráðherra undanskilur frá friðlýsingu líkt og fleygur rekinn inn í hjarta Þjórsárverasvæðisins sem Landsvirkjun og stjórnvöld munu í framtíðinni nýta sér til að stækka fyrirhuguð stíflumannvirki til samræmsi við fyrri áform fyrirtækisins. Ráðherra hefur rammaáætlun að engu og gefur auga leið að ef sitjandi umhverfis-og auðlindaráðherra kemst upp með geðþóttaákvarðanir þvert á gildandi lög og samþykktir Alþingis mun Landsvirkjun - hér eftir sem hingað til - engar sættir virða.



Athygli er vakin á að í greinargerð Umhverfisstofnunar með bréfi sínu til Skeiða- og Gnúpverjahrepps, dags. 27. desember s.l., stendur stofnunin fast við fyrri yfirlýsingar um að málsmeðferð stofnunarinnar við vinnu að friðlýsignarskilmálum fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti. Umhverfisstofnun hafi í engu brotið gegn Landsvirkjun og að umhverfis- og auðlindaráðherra taki undir með stofnuninni þar að lútandi.
 
… kemst Umhverfisstofnun að þeirri niðurstöðu [dags. 5. júlí 2013] að undirbúningur og málsmeðferð stofnunarinnar hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti, sérstaklega í ljósi þess að Alþingi hafi með samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlunar 14. janúar s.l. tekið ákvörðun um að virkjanakosturinn Norðlingaölduveita í 566 - 567,5 m.y.s. færi í verndarflokk áætlunarinnar. Ráðuneytið tekur undir með Umhverfisstofnun að ekki hafi þurft að leita samþykkis Landsvirkjunar fyrir friðlýsingarskilmálum. [áherslubreyting okkar].
M.ö.o. þær ástæður sem ráðherra gaf s.l. sumar fyrir frestun á undirritun friðlýsingarskilmála sem fram átti að fara þann 21. júní s.l. hafa reynst fyrirsláttur. Klögumál Landsvirkjunar vegna málsmeðferðar Umhverfisstofnunar eða að sveitarfélög hafi gert alvarlegar athugasemdir við þá málsmeðferð voru bara fyrirsláttur, áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×