Innlent

Ferðamenn ítrekað á vanbúnum smábílum á heiðum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Erlendir ferðamenn hunsa ítarlegar aðvaranir sem íslenskar bílaleigur veita. Þetta segir framkvæmdastjóri AVIS á Íslandi. Gistihúseigandi sem tók á móti ástölsku pari sem lenti í ógöngum á Fjarðarheiði segir ólíðandi að erlendir ferðamenn séu sendir á þjóðvegi landsins á vanbúnum bílum.



Ítrekað hafa verið fluttar fréttir af því að undanförnu að björgunarsveitir hafi bjargað erlendum ferðamönnum á vanbúnum smábílum við snjóþungar aðstæður. Færst hefur í vöxt að ferðamenn fari út fyrir borgarmörk og upp á heiðar með fyrrgreindum afleiðingum. Hjálmar Pétursson, framkvæmdastjóri AVIS á Íslandi, segir að ferðamönnum sé gert grein fyrir hættunni á íslenskum þjóðvegum en ferðamenn hunsi þær aðvaranir.

„Það er hvergi í heiminum þar sem ferðamenn fá jafnmikið af upplýsingum um öryggi og færð á vegum. Þessir ferðamenn láta okkur hins vegar ekki vita hvert þeir eru að fara og þvælast um landið á eigin vegum. Við getum ekki spurt hvern einasta mann hvert hann ætli að fara,“ segir Hjálmar.

Á smábíl í hrakningum

Ívar Ingimarsson, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, veitti áströlsku pari gistingu eftir að þau lenti í hrakningum á Fjarðarheiði akandi á smábíl á heilsársdekkjum. Hann spyr sig hvers vegna bílaleigur senda erlenda ferðamenn út á hringveginn á bílum, vitandi af hættunni sem leynist á fjallvegum landsins.

„Þetta var Yaris fólksbíll á vetrardekkjum sem voru ekki negld. Að vera á svoleiðis bíl á þessum slóðum er ekki gáfulegt,“ segir Ívar. „Björgunarsveitirnar eru endalaust að þvælast upp á fjallvegi í kringum Ísland til að bjarga fólki og draga niður bíla sem eru gjörsamlega óhæfir til að keyra á þannig veg.“

„Druslubílaleigur“ skjóta upp kollinum

Bílaleigan SAD Cars leigði ástralska parinu fólksbílinn og treysti parið sér ekki til að halda áfram ferð sinni til Akureyrar án þess að fá negld dekk undir bílinn. Frá hruni hafa sprottið fram bílaleigur sem leigja vanbúna og jafnvel ótryggða bíla. Hjálmar telur þó að sú bílaleiga sem leigði ástralska parinu bíl falli ekki í þann flokk. Þar hafi verið um eðlileg vinnubrögð að ræða.

„Við erum lengi búnir að benda á svokallaðar druslubílaleigur en þær eru misjafnar. Nýjasta dæmið var í fréttunum í dag og það var fullkomlega löglegur bíll á fínum heilsársdekkjum. Það eru ekki allar bílaleigur eins slæmar og dæmi voru um í sumar þar sem bílar voru ekki einu sinni tryggðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×