Innlent

Línuskipið Þorlákur komið til hafnar

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Þorlákur er kominn til hafnar á Ísafirði.
Þorlákur er kominn til hafnar á Ísafirði. Mynd/Hafþór
Togarinn Páll Pálsson kom með línuskipið Þorlák ÍS frá Bolungarvík til hafnar á Ísafirði í kvöld.

Um klukkan tvö í dag óskaði Þorlákur eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar þar sem leki var kominn að skipinu undir Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi.

Landhelgisgæslan virkjaði samhæfingarstöð í Skógarhlíð og þyrlurnar TF-LÍF og TF-GNA voru kallaðar út. Einnig var Landhelgisgæslan í sambandi við björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum.

Um borð í skipinu var fjórtán manna áhöfn. Dælur skipsins höfðu ekki undan og var því óskað eftir aðstoð. Sjór var kominn upp á miðja vél í vélarrúmi og skipið vélvana. Skipið er 160 tonn og 29 metrar að lengd.

Gunnar Friðriksson, björgunarskip Slysvarnafélagsins Landsbjargar og fiskiskipið Hálfdán Einarsson frá Bolungarvík komu fyrstir á staðinn með dælur og virtust þær hafa undan. Fiskikipið Fríða Dagmar frá Bolungarvík kom einnig með dælur og togarinn Páll Pálsson var sendur frá Ísafirði, sem að endingu dró skipið til hafnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×