Innlent

Missti heimili sitt í eldsvoða á Patreksfirði

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Ég vildi fara inn í húsið til að bjarga því sem bjarga gæti en ég mátti það ekki.“
"Ég vildi fara inn í húsið til að bjarga því sem bjarga gæti en ég mátti það ekki.“ vísir/brjánn
„Ég get ekki lýst tilfinningum mínum í orðum. Þetta er virkilega erfitt. En samt sem áður er ég betri í dag en í gær.“ Þetta segir Rafal Zoclonski, en betur fór en á horfðist þegar eldur varð laus í íbúðarhúsi hans á Patreksfirði í gærkvöld. Kona hans og barn náðu að forða sér út eftir að eldurinn kviknaði og sakaði þau ekki. Slökkviliðið fékk tilkynningu um eldinn á níunda tímanum í gærkvöldi. Um er ræða tveggja hæða forskalað timburhús en eldurinn kom upp á jarðhæð.

Rafal var í vinnunni þegar honum var tilkynnt símleiðis að heimili hans stæði í ljósum logum. „Ég fór rakleiðis heim og sá þar húsið mitt brenna. Ég vildi fara inn í húsið til að bjarga því sem bjarga gæti en ég mátti það ekki. Konan mín var í áfalli en börnin voru nokkuð hress,“ segir Rafal.

Húsið er óíbúðarhæft og er neðri hæð hússins gjörónýt. Föt allra fjölskyldumeðlima brunnu inni, en segir Rafal allar þeirra verðmætustu eigur hafa verið á efri hæð hússins og því er hann þakklátur.

„Öll fötin okkar eru ónýt, en það er ekki það sem skiptir mestu máli. Verra þykir mér að rúm barnanna hafi eyðilagst og allt sem þau áttu inni í herbergjunum sínum.“

Rafal segir þetta erfiða lífsreynslu sem þurfi þó að yfirstíga. Vinur Rafals mun veita fjölskyldunni húsaskjól fram í ágústmánuð, og leitar fjölskyldan nú að nýrri íbúð.

„Ég er ekki viss um að við getum bjargað íbúðinni. Lyktin er rosalega sterk og hæðin ónýt. En við þurfum að bíða eftir tryggingafulltrúa og sjáum hvernig fer.“  




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×