Skoðun

Skemmtiferða skipin og Harpa

Óskar Bergsson skrifar
Ein af mörgum leiðum til að fegra mannlíf og efla viðskiptin í miðborg Reykjavíkur er að gera viðlegukant fyrir skemmtiferðaskip við Hörpu. Með því móti sköpum við möguleikann á því að erlendir ferðamenn geti gengið beint frá borði í miðborgina og notið hennar eins og best verður á kosið. Farið á veitingahús og verslað í frábærum sérverslunum sem miðborgin býður upp á.

Þegar borgarstjórn Reykjavíkur tók þá umdeildu ákvörðun að halda áfram með byggingu Hörpunnar í miðju hruni gerði ég það að skilyrði fyrir samþykki mínu að gerður yrði viðlegukantur fyrir skemmtiferðaskip við Hörpu. Það skilyrði var sett inn í samninginn og sérstaklega tekið fram að þessi viðlegukantur yrði byggður. Þrátt fyrir það ákvæði samningsins var fyllingarefninu úr grunni Hörpu ekið í Sundahöfn í stað þess að nýta það þar. Núverandi borgarstjórn þarf að svara fyrir það hvers vegna ekki var staðið við samkomulagið. Fyrir næstu borgarstjórn liggur að taka málið upp og hefjast strax handa við að ljúka við viðlegukantinn. Sem dæmi má nefna að grjótinu frá Lýsisreitnum sem nú er verið að sprengja er ekið út úr borginni í stað þess að nýta það á þessum stað öllum til hagsbóta.

Fyrir hagsmunaaðila í miðborginni yrði viðlegukantur fyrir skemmtiferðaskip mikil vítamínsprauta sem fæli það í sér að göngufæri væri fyrir tugþúsundir erlendra ferðamanna um allan þann fjölbreytileika sem miðborg Reykjavíkur býður upp á. Þetta er framkvæmd sem búið er að semja um og munu framsóknarmenn í Reykjavík leggja mikla áherslu á að hún verði að veruleika eins og um hefur verið samið. Stöndum við gerðan samning, byggjum viðlegukantinn við Hörpu og glæðum miðborgina enn meira lífi.




Skoðun

Sjá meira


×