"Ég meiddist í upphafi bikarúrslitaleiksins. Tók undirhandarskot, lenti með hendina á andstæðingi og puttinn stóð bara upp í loftið á eftir," segir ÍR-ingurinn Björgvin Hólmgeirsson en hann spilar ekki meira í vetur.
Hann fékk það staðfest í morgun að liðband í þumli hægri handar sé slitið. Hann þarf að fara í aðgerð vegna meiðslanna á mánudag og verður frá í um átta vikur.
"Þetta er alveg grátlegt því við eigum bara fjóra leiki eftir í deildinni. Ef við vinnum þá förum við í úrslitakeppnina. Það er leiðinlegt að geta ekki hjálpað liðinu meira en ég hef tröllatrú á því að strákarnir klári þetta."
Þó svo Björgvin hefði meiðst snemma í bikarúrslitaleiknum fyrir tveim vikum þá spilaði hann samt allan leikinn og fór ekki upp á spítala fyrr en kvöldið eftir.
Þetta er mikið áfall fyrir ÍR enda Björgvin aðalskytta liðsins. Ingimundur Ingimundarson er einnig meiddur og óvíst með framhaldið hjá honum.

