Lífið

Innlyksa í auglýsingabransanum í 20 ár

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Einar Gunn tók upp nafnið eftir að hafa gefist upp á því að kenna Könum að bera fram eftirnafn sitt.
Einar Gunn tók upp nafnið eftir að hafa gefist upp á því að kenna Könum að bera fram eftirnafn sitt. MYND/Úr einkasafni
„Það hefur enginn leikari neitt upp úr neinu. Nema að maður sé Tom Cruise,“ segir Einar Gunn, leikari, léttur í bragði en hann leikur hlutverk prestsins í sjónvarpsþættinum The Michael J Fox Show sem sýndur verður á Stöð 2 annað kvöld.

„Ég leik prest sem stendur fólk að því að vera að gera eitthvað af sér í söfnun á matvöru fyrir bágstadda. Þetta er þakkargjörðar-þátturinn þeirra,“ segir Einar, en lætur ekki meira uppi.

„Þetta er ósköp lítið hlutverk – en ég vona auðvitað að það verði að einhverju meiru,“ bætir Einar við.

„Ég flutti til Bandaríkjanna árið 1985 og fór í Parsons School of Design. Ég varð innlyksa í auglýsingabransanum í rúm tuttugu ár þangað til að mér var loksins sagt upp eftir einum of margar sameiningar á fyrirtækum. Ég hafði lifað margar af, en þarna var komið að mér,“ segir Einar og hlær.

„Þannig datt ég óvart út í leiklist og er búin að vera að vinna við þetta í sex ár,“ heldur hann áfram.

Einar Gunn ásamt leikaranum Wendell Pierce og fleiri myndir af tökustað.MYND/Úr einkasafni
Hann er þó ekki alveg hættur í auglýsingabransanum. 

„Ég vinn einhver verkefni heiman frá mér, en annars er ég svo vel giftur að eiginkona mín sér fyrir mér,“ bætir Einar við og hlær, en hún starfar sem fjármálastjóri í fyrirtæki sem sérhæfir sig meðal annars í því að flytja íslenskan fisk til Bandaríkjanna. 

Einar hefur þó leikið talsvert á þessum sex árum og lék til að mynda í sýningu sem var sýnd á Broadway og heitir A Man for All Seasons. Auk þess hefur hann leikið í internet-seríunni Pioneer One, og The Men Who Built America á History Channel.

„Hlutverkið á Broadway var algjört glópalán,“ segir Einar, kíminn, en bætir við að lokum að Íslendingar gætu helst þekkt hann sem Grillgoðann úr grillauglýsingum Goða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.