Skoðun

Tækifæri í evrópusamstarfi

María Kristín Gylfadóttir skrifar
Síðastliðin tíu ár hef ég unnið að því að stuðla að og styðja við þátttöku Íslendinga í menntaáætlun Evrópusambandsins.  Fólk hefur ólíkar skoðanir á ESB, og líka á Evrópustyrkjum, en fleiri eru sammála um að tækifærin sem áætlunin veitir hafa nýst Íslendingum vel og verið jákvæð innspýting í íslenskt menntakerfi.

Í dag föstudag verða nýjar kynslóðir Evrópuáætlana um menntun, menningu, rannsóknir og æskulýðsmál kynntar á opnunarráðstefnu á Hótel Sögu.  Ný mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun sem hefur fengið nafnið Erasmus+ mun á næstu sjö árum veita fjórum milljónum einstaklinga innan Evrópu tækifæri til að efla eigin færni, stuðla að nýsköpun í menntun og skapa sér atvinnutækifæri til framtíðar.

Síðan 1992 hafa meira en 7000 Íslendingar – ólíkir hópar nemenda, kennara, skólastjórnenda, fræðsluaðila og fulltrúa atvinnulífs - tekið þátt í  fjölþjóðlegu samstarfi í gegnum menntaáætlun ESB. Þeir hafa þroskast sem einstaklingar, öðlast nýja færni, miðlað því sem vel er gert í íslensku menntakerfi og eignast nýja vini – oft fyrir lífstíð.  Sumir hafa jafnvel farið erlendis í nám og ekki snúið til baka.  Fyrr í vikunni hitti ég ungt par, Íslending og Frakka, í flugvél á leið til Íslands.  Frakkinn kom hingað fyrir rúmum sjö árum sem Erasmus stúdent – hann er enn hér.  Árlega koma helmingi fleiri Erasmus stúdentar til Íslands í nám en fara utan.  Margir ílengjast.  Í því felst hagur fyrir íslenskt samfélag og ekki síður efnahagslíf.

Það hafa verið forréttindi að fylgjast með því hversu vel okkur Íslendingum hefur farnast í þessu samstarfi.  Svo það sé sagt þá höfum við ótrúlega mikið fram að færa þegar kemur að menntun. Þannig gætir áhrifa af þátttöku ekki einungis hjá einstaklingum heldur ekki síður hjá mennta- og fræðslustofnunum og í atvinnulífinu sjálfu. Skimunartæki til að sporna við brotthvarfi, heilstæð starfsendurhæfing, gæðahandbækur fyrir þjálfun starfsnema vinnustað, nám í plastiðnaði, og ný kennslubók í sauðfjárrækt eru örfá dæmi um nýlegar afurðir evrópskra samstarfsverkefna. Áhrifa hugmyndaauðgi okkar og nýsköpunar gætir ekki síður í samstarfslöndum okkar en hér heima. Í því er falinn auður.

En gleymum ekki því sem við getum lært af öðrum. Íslenskt menntastefna sem er mótuð í kringum markmið um nám alla ævi tekur mið af ríkjandi áherslum varðandi menntun í Evrópu. Þar er stefnt að evrópsku menntavæði þar sem hvert ríki heldur sérkennum sínum en löndin starfa saman þar sem þess er þörf, s.s. við að auka gagnsæi menntakerfa til að tryggja að nemendur og vinnuafl fái nám og námsgráður metnar milli landa. Núverandi áskoranir í menntun á Íslandi eru þær sömu og annars staðar í Evrópu: hvernig stuðlum við að  aukinni skilvirkni en tryggjum um leið gæði? Útskrifast nemendur með þá færni og þekkingu sem hentar atvinnulífinu? Hvaða leiðir eru færar við fjármögnun náms sem tryggir um leið þátttöku sem flestra í námi? Erasmus+ veitir fjölmörg tækifæri til opins samráðs um þessar og fleiri áskoranir í menntun.




Skoðun

Sjá meira


×