Sem betur fer var um að ræða gott glens hjá einum landsliðsmannanna sex sem tryggðu sér í dag sæti í lokakeppni Evrópumóts landsliða á næsta ári. Birgir Leifur hafði skilið síma sinn eftir á glámbekk og strákarnir gengið á lagið.
„Við erum ennþá að klára kvöldverðinn," sagði Birgir Leifur léttur í símann. Íslenska liðið hafnaði í öðru sæti af tíu þjóðum á Challenge Trophy mótinu í Tékklandi og tryggði sér þannig sæti í lokakeppninni líkt og Belgar sem urðu efstir.
Birgir Leifur sagði í viðtali við Fréttablaðið á fimmtudaginn að hann hefði tröllatrú á að íslenska liðinu tækist ætlunarverk sitt. Hann viðurkenndi að það væri ekki leiðinlegt að standa við stóru orðin.

Enginn spilaði betur í gær en Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Kappinn spilaði á besta skori allra yfir dagana þrjá, á 66 höggum eða sex höggum undir pari.
„Hann stóð sig ótrúlega vel. Náði skollalausum degi og það var virkilega gott að fá svona hring inn í talninguna."

„Svo blönduðu Tyrkir sér inn í þetta. Þeir voru greinilega sterkir. Völlurinn var erfiður en mínir menn stóðust álagið," sagði Skagamaðurinn.
Birgir Leifur er atvinnumaður og því ekki gjaldgengur í landsliðið sem aðeins er skipað áhugamönnum. Hann var í fyrsta skipti í hlutverki liðsstjóra og sagði það hafa verið skrýtin tilfinning að fylgjast með af hliðarlínunni.
„Það var heiður að fá að kynnast þessum strákum."
