SÁÁ fær 2,5 milljónir króna sem söfnuðust í tengslum við gala-kvöldverð í Hörpu í janúar. Að viðburðinum stóðu þrír matreiðslumenn og vínþjónn frá veitingastaðnum Fifteen í London, ásamt veitingastaðnum Kolabrautinni.
„Verkefnið var að frumkvæði Fifteen og er liður í góðgerðaverkefni sem miðar að því að styðja við bakið á íslenskum ungmennum sem glímt hafa við vímuefnavanda og hjálpa þeim að komast út í atvinnulífið," segir í tilkynningu. Þá kemur fram að stjörnukokkurinn Jamie Oliver hafi stofnað veitingastaðinn Fifteen og eitt aðalmarkmið hans sé að hjálpa unglingum að fóta sig eftir vímuefnaneyslu.
Aðgangseyrir á gala-kvöldinu var á bak við 1,8 milljónir upphæðarinnar sem safnaðist, en einnig var boðið upp verk eftir Birgi Andrésson, sem gefið var af fjölskyldu Birgis og gallerý i8. Verkið seldist á 700 þúsund krónur.
Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, tók við peningunum og sagði þeim verða varið til að efla eftirfylgni við áfengis- og vímuefnameðferð ungmenna til að stytta leið þeirra til virkni í samfélaginu.
Verkefninu lögðu lið Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús, Ekran, Arion banki, Ölgerðin, Glóbus, Rjc, Sjófiskur, Kjarnafæði, Bananar, Andri Snær Magnason, Gallerí i8, Þórir Baldursson, Kolabrautin og Frú Lauga.
