Skoðun

Sætir sigrar – beisk töp

Sverrir Björnsson skrifar
Borgarbúar hafa löngum þurft að berjast við borgaryfirvöld til að verja sjarma Reykjavíkur, gömlu húsin. Sumar orrustur hafa tapast, aðrar unnist.

Þökk sé framtaki og borgaralegri óhlýðni félaga Torfusamtakanna standa þar nú gömlu húsin en ekki steinsteypuferlíkið sem borgarstjórn ætlaði að setja þar – glæsilegur sigur.

Fjalakötturinn, elsta kvikmyndahús í Evrópu, var rifið til að þjóna hagnaði eins manns, lóðareigandans á kostnað allra Evrópubúa – dapurlegur ósigur.

Gömlu húsunum við Laugarveg 4-6 var bjargað á síðustu stundu af Ólafi Magnússyni borgarstjóra. Takk! – góður sigur.

Húsið við Aðalstræti 4 var rifið og einn maður græddi á byggingu hótel Plaza í stað þess að Minjavernd gerði upp húsið og allir borgarbúar hefðu grætt – mikill ósigur.

Gamla húsið í Tjarnarhorninu var fjarlægt og Ráðhús Reykjavíkur sett þar niður – stór ósigur. Þar sem Ráðhúsið er heimili borgaryfirvalda og varanlegt minnismerki um yfirgang í skipulagsmálum er rétt að fara nokkrum orðum um það. Staðsetningu Ráðhússins var harðlega mótmælt, því fólk vildi vernda svæðið og halda stíleinkennum þess. Ekkert var hlustað á það og Ráðhúsið reis. En hvaðan kemur þessi óskapnaður og hugmyndafræðin sem hann byggist á, steypudýrkun og valdsmannslegar súlnaraðirnar? Það er ekkert í íslenskri menningu sem rímar við hönnun hússins nema bogadregin þökin sem minna á mesta niðurlægingartímabil í byggingasögu Reykjavíkur; braggahverfin.

Valdhroki

Stíll hússins minnir helst á steinsteypuklumpana sem einræðisherrar byggja til að gera vald sitt sýnilegt. Í Þýskalandi nasismans, Ítalíu fasismans og gömlu Sovétríkjunum voru steypan og súlurnar aðalmálið. Það mætti halda að Kim Il-sung hefði haft úrslitavalið um stíl hússins en ekki Davíð Oddsson, því miðborg Pjongjang er vörðuð áþekkum byggingum. Það er þekkt að borgarstjóraembættið í Reykjavík var lengst af á 20. öld eins konar einveldi borgarstjóra. Því er nærtækt að álykta að þaðan komi hugmyndafræðin sem réði vali á byggingarstíl Ráðhússins. Nú þegar krafan um aukið lýðræði er eitt megineinkenni tímans er báknið við Tjörnina eins og uppdagað nátttröll.

Innandyra ráða þyngslin og steypan líka ríkjum, Tjarnarsalurinn er hálfsokkinn í bílakjallarann og Tjörnina og kaffistofan er inndregin undir drungalegt steypuþak. Hvað var verið að pæla? Tjörnin, með endalausum leik ljóssins og miklu lífi, er þarna beint fyrir framan. Það er spurning hvort arkitektinn eða verktakinn sneri teikningunni öfugt. Húsið myndar L, og ef því er snúið um 180 gráður liggur húsið með Tjörninni í stað þessa að skaga út í hana. Var ekki meiningin að ganga sem minnst á Tjörnina? Ef teikningunni hefði verið snúið rétt myndi eini laglegi hluti hússins, mosaveggirnir og gluggarnir í borgarstjórnarsalnum snúa að helsta útivistarsvæði borgarbúa við Iðnó í stað forljótra steypuveggjanna. Ráðhúsið er því miður varanlegur minnisvarði um valdhroka borgaryfirvalda og ætti að vera þeim sem þar vinna víti til varnaðar.

Mörg okkar sem kusum Besta flokkinn gerðum okkur vonir um að þar fengjum við bandamenn í baráttunni um að vernda Reykjavík, en nú berst borgarstjórn af afli fyrir niðurrifi menningarverðmæta og uppgangi steinsteypunnar við Austurvöll – dapurlegt.

Verndunarsinnar geta þó enn haft sigur í þeirri orrustu. Mætum á mótmælatónleikana á Austurvelli í dag kl. 14.




Skoðun

Sjá meira


×