Skoðun

Tap kynslóðanna

Sverrir Björnsson skrifar
Í tilefni af skeyti frá í fjarska góðum vini mínum Dóra DNA í Fréttablaðinu á dögunum er rétt að taka fram að gömlu húsin í miðborg Reykjavíkur tilheyra ekki minni kynslóð sérstaklega. Þau, eins og önnur menningarverðmæti, eru eign allra kynslóða; genginna, núlifandi og ekki síst tilvonandi. Því ættu valdhafar að stíga varlega til jarðar í niðurrifi þó að þeir sitji með skipulagsvald í borginni um skamma hríð.

Það er nýrra kynslóða að skora það á hólm sem fyrir er, gagnrýna og gera betur, þannig fer heiminum fram. Baráttan fyrir húsverndun var leidd af hugmyndum hippakynslóðarinnar um afturhvarf til náttúrunnar og virðingu fyrir umhverfinu. Ungu fólki ofbauð rétttrúnaður módernismans sem ruddi miskunnarlaust öllu niður til að byggja nýjan og betri heim á áratugunum eftir stríð. Hugmyndafræðilegur réttrúnaður hefur reynst mikill skaðvaldur fyrir eldri menningarverðmæti og á liðnum árum hefur rétttrúnaður frjálshyggjunnar um óheft vald fjármagnsins verið helsti óvinur eldri bygginga í miðbæ Reykjavíkur. Vald húseigenda til að þenja sig út í ystu mörk byggingamagns án þess að borgin geti gripið í taumana nema með óheyrilegum tilkostnaði er meinsemd sem þarf að laga.

Í greininni Sætir sigrar – beisk töp taldi ég upp nokkrar gamlar byggingar sem hafa horfið úr miðbænum en einnig má nefna tjón á innviðum húsa þar sem menningarsnauðir fjársýslusauðir hafa farið hamförum. Gömlu innréttingunum í Naustinu var mokað á öskuhaugana. Innréttingarnar í Reykjavíkur Apóteki fjarlægðar til að rýma fyrir diskóteki ásamt innréttingunum í verslun Egils Jacobsen. Öllu þessu hafa komandi kynslóðir verið rændar.

Í dag er virðing fyrir því sem er liðið leidd af krúttkynslóðinni. Hún hefur skynjað verðmæti í gömlu á nýjan hátt, fundið rætur til að skapa nýja menningu; nýja tónlist innblásna af fornum hljómi, virðingu fyrir náttúrunni og grasrótarmenningu. (Hún hefur meira að segja komið gömlu lopapeysunni aftur í tísku, og nú síðast fornaldarlegu alskegginu.) Í átökum um húsavernd er farsælt að fylgja gömlu íslensku leiðarstefi: Við eigum lítið, förum vel með það.




Skoðun

Sjá meira


×