Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - Víkingur Ó. 0-0

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar Már fór meiddur af velli í kvöld.
Rúnar Már fór meiddur af velli í kvöld.
Leikmönnum Vals og Víkings frá Ólafsvík tókst ekki að finna leiðina í markið í viðureign liðanna í 11. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Gestirnir voru síst slakari aðilinn og Valsmenn voru fjarri sínu besta.

Gestirnir úr Ólafsvík mættu ferskari til leiks og ætluðu greinilega að selja sig dýrt. Þeir fundu fyrir góðum stuðningi í stúkunni þar sem brottfluttir Ólsarar í bland við félaga sína úr bæjarfélaginu létu vel í sér heyra.

Guðmundur Magnússon var afar líflegur í framlínu Víkings sem báru litla virðingu fyrir stóra liðinu úr Reykjavík. Virðing þeirra fyrir Fjalari Þorgeirssyni, markverði Vals, virkaði hins vegar heilmikil enda höfnuðu flest skot og skallar gestanna beint í fangi Fjalars sem var öryggið uppmálað í markinu.

Valsmenn urðu fyrir áfalli undir lok fyrri hálfleiks þegar Rúnar Már Sigurjónsson fór haltrandi af velli. Svo virtist sem Rúnar Már hefði tognað aftan í læri við misheppnaða hælspyrnu og útlit fyrir að hann verði á hliðarlínunni í einhverjar vikur.

Eftir markalausan fyrri hálfleik slapp Arnar Sveinn Geirsson, sem lék með Ólsurum í fyrra, einn í gegn. Einar Hjörleifsson lokaði hins vegar vel á hann en Arnar Sveinn var þó í nokkuð þröngri stöðu. Á hinum endanum varði Fjalar bæði frá Guðmundi og Eldar Masic í fínum færum.

Umdeilt atvik kom upp í síðari hálfleik þegar Farid Zato tæklaði Hauk Pál Sigurðsson illa. Heimamenn vildu fá rautt á Zato sem slapp með gult. Haukur fór meiddur af velli líkt og Rúnar Már Sigurjónsson sem meiddist í fyrri hálfleiknum. Ekki góð tíðindi fyrir Valsmenn.

Kiko Insa, miðvörður Ólsara, fékk að líta sitt annað gula spjald seint í leiknum. Ellefu leikmenn Vals áttu þó engar lausnir við varnarleik gestanna sem lágu til baka og vörðu stigið.

Stigið kemur hvorugu liðinu upp um sæti í deildinni. Víkingar eru áfram í 10. sæti en nú með sex stig en Valsarar eru með 17 stig í 6. sæti.

Magnús Gylfa: Hann fór með takkana beint í legginn á honum„Mér fannst þetta vera púra rautt spjald. Hann var bara of seinn í tæklingu. Stökk í hann með takkana beint í leggina á honum. Ég veit ekki hvað er hættulegt ef þetta er ekki hættulegt,“ sagði Magnús Gylfason þjáflari Vals í leikslok.

Umræðuefnið var tækling Farid Zato á Hauki Páli Sigurðssyni í síðari hálfleik. Haukur Páll fór meiddur af velli og Zato var áminntur. Vildu Valsmenn fá rautt á leikmann gestaliðsins en fengu ekki.

Framlína Valsmanna var arfaslök í leiknum og Magnús segir liðið í framherjaleit. Ekki síst í ljósi þess að ekki tókst að skora mark í sumar. En hefur Valur lagt fram tilboð í Steven Lennon, framherja Fram?

„Nei, við höfum ekki sent inn formlegt tilboð. En hann er framlínuleikmaður á Íslandi. Hann kemur til greina eins og aðrir.“

Magnús sagði sýna menn hafa orðið undir í baráttunni gegn sprækum gestum sem hann hrósaði. Hann þarf nú að glíma við vænan hausverk í ljósi meiðsla Hauks Páls og Rúnars Más Sigurjónssonar sem fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks.

„Rúnar Már fór aftan í læri sem er yfirleitt alvarlegt. Ég vona fyrir allra hönd að Haukur sé ekki brotinn. Hann fékk takkana í legginn og mér sýndist hann ekki vera brotinn.“

Guðmundur fór í viðtal í leyfisleysiGuðmundur Magnússon, framherji Víkings Ólafsvíkur, átti frábæran leik með liði sínu á Hlíðarenda í kvöld.

„Mér fannst við miklu betri fyrir utan kafla í seinni hálfleik. Svo stigum við upp. Ég sá ekki rauða spjaldið (innsk: á Kiko Insa) sem við fengum á okkur en eftir það pökkuðum við bara og reyndum að verja stigið,“ sagði Guðmundur sem virtist á báðum áttum hvort hann ætti að fara í viðtal við blaðamenn í leikslok.

Framherjinn sagði uppleggið hafa verið að loka á Magnús Má Lúðvíksson og láta Nesta bera upp boltann.

„Hann hefur ekki sömu spyrnugetu og Maggi. Við gerðum það vel og miðjumennirnir lokuðu vel á Rúnar Má og Hauk. Þeir voru í vandræðum á tímabili. Fjalar var með boltann og vissi ekkert hvað hann átti að gera.“

Guðmundur hafði sína skoðun á tæklingunni hjá Zato og Hauki Páli.

„Ég sá þetta aftan frá og skil ekki hvernig hann getur gefið Farid gult spjald og honum (Hauki Páli) ekki neitt. Hann fór ekki með sóla á móti eða neitt. Þetta var bara fagmannleg tækling og í mesta lagi gult spjald.“

Að viðtalinu loknu kom í ljós að Guðmundur hafði veitt blaðamanni viðtal þvert á skipanir Ejub Puricevic til leikmanna sinna að fara ekki í viðtöl. Einar Hjörleifsson, markvörður gestanna, fór einnig í viðtöl en samkvæmt heimildum Vísis fékk hann skýr skilaboð frá Ejub, á leiðinni út á völl aftur að leik loknum, hvernig hann ætti að bera sig að í viðtali sínu.

Guðmundur bað Ejub afsökunar á því að hafa farið í viðtal. Ejub svaraði honum að hann yrði að fara eftir settum reglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×