Skoðun

Nýtt samstarf á sviði lýðheilsu

Geir Gunnlaugsson og Dagur B. Eggertsson skrifar
Embætti landlæknis og Reykjavíkurborg hafa tekið höndum saman um fjölþætt samstarf á sviði lýðheilsu. Verkefni sem því tengjast fara þegar af stað og í lok mánaðarins er fyrirhuguð ráðstefna þar sem einn þekktasti sérfræðingur heims um margvíslega áhrifaþætti á heilsu og vellíðan fólks er meðal fyrirlesara.



Ójöfnuður og heilsuleysi

Eitt markmiða í starfi Embætti landlæknis er að greina ójöfnuð til heilsu á Íslandi og í framhaldinu að setja fram aðgerðaáætlun, m.a. í samvinnu við sveitarfélög í landinu til að draga úr ójöfnuði til heilsu. Einn liður í þessari áætlun er samstarfssamningur við Reykjavíkurborg sem við undirrituðum þann 4. júní sl. fyrir hönd Embættis landlæknis annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar. Í honum felst samkomulag um að taka upp markvisst samstarf til heilsueflingar og aukinnar lýðheilsu í Reykjavík. Samstarfið mun beinast að þremur áherslusviðum; heilsueflandi samfélagi, heilsueflandi skólum og auknum jöfnuði.



Heilsuefling í hverfum og skólum

Í samningnum er sérstaklega fjallað um heilsueflandi hverfi en Embætti landlæknis mun veita sérfræðiráðgjöf í tengslum við vinnu að hverfaskipulagi í Reykjavík sem þegar er hafin. Hverfaskipulagi er ætlað að ná heildstætt yfir alla lykilþætti sem þurfa að vera til staðar til að stuðla að góðu, sjálfbæru hverfi sem tryggir lífsgæði þeirra sem þar búa. Mun fulltrúi landlæknis taka þátt í samráði með íbúum hverfanna sem miðar að því að tryggja að hverfaskipulagið stuðli að heilsueflingu íbúanna. Einnig er fjallað um heilsueflingu í skólum og er stefnt að því að sem flestir leik- og grunnskólar, ásamt frístundaheimilum á vegum borgarinnar, taki þátt í því verkefni fyrir lok árs 2015 í samræmi við metnaðarfulla stefnumörkun skóla- og frístundaráðs um heilbrigði og vellíðan í skólum borgarinnar.



Áhrif ójöfnuðar á heilsu

Í samningnum er fjallað um afleiðingar ójöfnuðar í samfélaginu á heilsufar en rannsóknir sýna að ójöfnuður er einn stærsti áhættuþátturinn varðandi sjúkdóma og vanheilsu fólks. Munu Embætti landlæknis og Reykjavíkurborg vinna sameiginlega að því að greina ójöfnuð og afleiðingar hans á heilsufar og koma með tillögur um hvernig vinna megi að jöfnum tækifærum sem leiða til betri lýðheilsu. Samstarfssamningurinn við Reykjavíkurborg er gott skref í átt að þeim markmiðum sem Embætti landlæknis hefur sett sér um öflugt lýðheilsustarf á öllum æviskeiðum um leið og það styður við starf Reykjavíkurborgar að bættri lýðheilsu í borginni.



Einn helsti sérfræðingur heims til Íslands

Alþjóðlega heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur á síðustu árum lagt ríka áherslu á greiningu á félagslegum áhrifaþáttum heilbrigðis. Tilgangurinn er m.a. að meta hvort heilsufar sé ólíkt milli félagshópa eða með öðrum orðum að meta ójöfnuð til heilsu. Sir Michael Marmot, prófessor og yfirmaður stofnunar um heilsu jöfnuð (Institute of Health Equity) hefur leitt vinnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á þessu sviði og er nú ráðgjafi stjórnvalda víða um heim. Sir Marmot verður aðalfyrirlesari á ráðstefnu um áhrifaþætti á heilsu og líðan sem verður haldin þann 28. júní nk. í Háskólanum í Reykjavík og er haldin í minningu dr. Guðjóns Magnússonar prófessors.

Ráðstefnan er haldin að frumkvæði Embættis landlæknis í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og velferðarráðuneytið og þar verða m.a. kynntar nýjar niðurstöður embættisins um heilsu og ójöfnuð á Íslandi. Er ástæða til að hvetja allt áhugafólk um lýðheilsu og betra samfélag til að gefa sér tíma til að sitja ráðstefnuna og taka þátt í umræðunni.




Skoðun

Sjá meira


×