Viðskipti innlent

4G komið í iPhone hjá Nova

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Liv Bergþórsdóttur er forstjóri Nova.
Liv Bergþórsdóttur er forstjóri Nova.
Viðskiptavinir Nova sem eru með iPhone 5, iPhone 5c og iPhone 5s farsíma hafa frá og með deginum í dag möguleikann á að fá 4G/LTE þjónustu í símann sinn.

Í tilkynningu frá Nova segir að viðskiptavinir fái senda uppfærslu símann sinn og hægt sé að fá 4G/LTE strax með því að tengja við iTunes og uppfæra símann. Eftir uppfærslu mun LTE standa á skjá símans.

 

„Við hjá Nova höfum unnið að því um langt skeið að ná þessum beina samningi við Apple og það er mikið fagnaðarefni að það hafi nú tekist,“ segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova. „iPhone er vinsælasti farsíminn hjá viðskiptavinum Nova og það eru því mikil tímamót fyrir Nova að geta boðið 4G þjónustu í þessa vinsælu farsíma.“

Nú þegar eru yfir 40 þúsund iPhone farsímar í notkun á farsímakerfi Nova og er óhætt að segja að upplifun viðskiptavina af því að nota netið í 4G kerfinu sé allt önnur en í 3G enda styður 4G yfir 10 sinnum meiri nethraða en 3G.

„Það eru mikil tímamót fyrir viðskiptavini okkar að geta núna nýtt sér alla þá kosti sem 4G býður upp á. Við höfum lagt á það mikla áherslu að byggja upp 4G kerfið okkar hratt og örugglega til að geta boðið þessa þjónustu enda er þetta það sem koma skal nú þegar nánast allir eru með snjallsíma og spjaldtölvur,“ segir Liv.

Nova er eina farsímafyrirtækið á Íslandi sem býður 4G þjónustu í farsíma.

 

Nova hóf 4G þjónustu á Íslandi í apríl á þessu ári, fyrst símafyrirtækja á Íslandi. 4G þjónustan er í boði á öllu höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbæ, Akureyri, Selfossi og sumarhúsasvæðunum í Skorradal og Grímsnesi. 4G styður 10 sinnum meiri hraða en hefðbundið 3G samband, þrefalt meiri hraða en ADSL og er sambærilegt við ljósleiðara eða um 20 – 40 Mb/s hraða til notenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×