Neytendur

Inn­kalla þurrmjólkina eftir allt saman

Árni Sæberg skrifar
Þessi þurrmjólk hefur verið innkölluð.
Þessi þurrmjólk hefur verið innkölluð. Danól

Danól, í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, hefur hafið innköllun á NAN Expert Pro HA 1 og NAN Pro 1 þurrmjólk með lotunúmerunum 51690742F4, 51180346AC og 51250346AC. Áður hafði verið tilkynnt sérstaklega að ekki væri ástæða til þess að innkalla þurrmjólkina hér á landi en þá hafði það verið gert í Noregi.

Danól tilkynnti í fyrradag að Nestlé í Noregi hefði af öryggisástæðum hafið innköllun á ákveðnum framleiðslulotum af NAN þurrmjólk fyrir börn. Loturnar sem um ræddi væru hvorki í dreifingu né sölu hér á landi. Því þyrfti ekki að fara í neinar innkallanir á þurrmjólkinni á Íslandi.

Nú segir aftur á móti í tilkynningu fyrirtækisins að Nestlé í Noregi hafi uppfært upplýsingar sínar um innköllunina og því sé nú farið í innköllun hér á landi. 

„Ástæða innköllunarinnar er aðskotaefni sem fannst í hráefni sem notað er við framleiðslu þurrmjólkurinnar. Ekki hafa borist neinar tilkynningar um veikindi vegna málsins samkvæmt upplýsingum frá Nestlé. Eðli málsins samkvæmt er varað við neyslu á umræddum vörum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×