Skoðun

Undarleg umfjöllun um faglega stjórnsýslu

Benedikt Stefánsson skrifar
Íslensk stjórnsýsla verður fyrir óvæginni gagnrýni í leiðara Fréttablaðsins á miðvikudag. Tilefnið er umfjöllun blaðsins um feril laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum. Blaðið ályktar að stjórnsýsluna skorti sjálfstæði og aga í vinnubrögðum.

Þetta er fremur súrrealísk niðurstaða í ljósi staðreynda. Lögin um endurnýjanlegt eldsneyti áttu sér langan aðdraganda og eru ágætt dæmi um afrakstur stefnumótunar Alþingis og faglegs samráðs stjórnsýslunnar.

Árið 2010 skipaði iðnaðarráðherra verkefnisstjórn Grænu orkunnar til að móta stefnu um orkuskipti í samgöngum. Í henni áttu sæti fulltrúar ráðuneyta, Orkustofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fagaðila. Þar hafa átt sæti meðal annars fulltrúar olíufélaganna, FÍB og Bílgreinasambandsins.



Græna orkan hefur haft frumkvæði að opnum fundum og fyrirlestrum fyrir hagsmunaaðila, auk þess sem hún átti aðkomu að breytingu á lögum um gjöld af ökutækjum og eldsneyti, tillögu til þingsályktunar um orkuskipti, auk áðurnefndra laga um endurnýjanlegt eldsneyti.

Þverpólitísk samstaða hefur myndast um stefnu á þessu sviði. Vorið 2011 samþykkti Alþingi þingsályktun um orkuskipti í samgöngum með öllum greiddum atkvæðum, 53 þingmanna. Þar segir að stefna beri að því að uppfylla alþjóðasamþykktir um losun gróðurhúsalofttegunda. Hratt verði dregið úr innflutningi jarðefnaeldsneytis og skapaðar forsendur fyrir innlendri framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Haustið 2012 skuldbundu Ísland og Noregur sig til að innleiða tilskipun ESB sem fjallar m.a. um markmið varðandi orkuskipti í samgöngum.

Leiðarinn fjallar um að Carbon Recycling International hafi „stokkið inn í stefnumótunarferlið“ með því að senda atvinnuvegaráðuneytinu drög að frumvarpi. Drögin byggðu einfaldlega á texta tilskipunar ESB og innleiðingu hennar í lög Norðurlandanna og annarra EES-ríkja.

Leiðarahöfundur dregur þá ályktun að frá því að drögin komu fram hafi stjórnsýslan ekki fengið rönd við reist. Ráðuneytið hafði þó unnið að málinu a.m.k. frá árinu 2010 og hélt áfram í samráði við önnur ráðuneyti, undirhóp Grænu orkunnar um íblöndun, Orkustofnun, framleiðendur endurnýjanlegs eldsneytis og olíufélögin.

Þegar upp er staðið er því, þvert á umfjöllun blaðsins, um að ræða faglega vinnu stjórnsýslunnar og starfshóps skipuðum af ráðherra á grundvelli pólitískrar stefnumótunar og samráðs við aðila í greininni.




Skoðun

Sjá meira


×