Skoðun

Rafbílar – stefna óskast

Magnús Jónsson skrifar
Norðmenn hafa tekið afgerandi forystu meðal þjóða heims í rafvæðingu bílaflota síns. Í nóvember voru rafbílar um 14% af öllum seldum bílum í Noregi og Nissan Leaf var mest selda einstaka bílategundin í þessum sama mánuði. Nú eru yfir 17 þúsund rafbílar á vegum Noregs og hefur sala þeirra milli ára meira en tvöfaldast. Allt bendir því til þess að opinbert markmið Norðmanna um 200 þúsund rafbíla í landinu árið 2020 náist og meira en það.

Skýr stefna í Noregi

Þessi árangur hefur fyrst og fremst náðst vegna þess að norsk stjórnvöld, bæði ríkisstjórn, þjóðþing og sveitarstjórnir hafa mótað og stutt þá stefnu að rafvæða bifreiðaflotann. Um áratugur er síðan slík stefna var fyrst sett fram. Þar á bæ voru menn því vel undir það búnir að taka á móti „alvöru“-rafbílum sem hafa verið að koma á markaðinn á síðustu 2-3 árum svo sem Nissan Leaf, Tesla o.fl. Með opinberum stuðningi hafa verið settar upp í landinu yfir 200 hraðhleðslustöðvar og fjörutíu bætast við á næstunni. Sveitarfélög hafa haft frumkvæði að uppbyggingu meira en 4.000 minni hleðslustöðva, sem flestar eru í eigu þeirra. Þau hafa einnig veitt rafbílum margs konar forréttindi í akstri svo og fríðindi í bílastæðum.

Horft í allar áttir á Íslandi

Þrátt fyrir að hvergi í heiminum séu jafn hagstæðar aðstæður fyrir rafbíla og á Íslandi eru aðeins nokkrir tugir rafbíla á vegum Íslands. Meginástæða þess að ekki hefur orðið hliðstæð þróun hérlendis og í Noregi er,að mati undirritaðs, skortur á opinberri stefnu. Hér á landi hefur verið sett fram almenn opinber stefna um orkuskipti í samgöngum sem formlega var gefin út í nóvember 2012. Þar segir í einum stefnuliða skjalsins: „Gerð verði hagkvæmnisathugun á uppbyggingu innviða fyrir ALLA kosti orkuskipta, þ.e.a.s. mismunandi orkugjafa og orkubera.“ Hér er beinlínis sagt að stjórnvöld ætli ekki að hafa neina skoðun á því hvers konar orkuskipti eigi að fara fram í samgöngum.

Fróðlegt er að bera þetta stefnuleysi í orkumálum bifreiða saman við þá stefnu sem stjórnvöld hér á landi mótuðu í orkuskiptum til húshitunar á 8. áratug síðustu aldar. Öruggt má telja að hitaveituvæðingin hér á landi hefði ekki átt sér stað með jafnafgerandi árangri ef engin opinber stefna hefði þá verið mótuð né henni fylgt eftir með margs konar frumkvæði og stuðningi. Þjóðin nýtur þess í dag því talið er að uppbygging hitaveitna um allt land spari árlega um 70 milljarða króna og það að mestu í erlendum gjaldeyri.

Ódýrir innviðir

Á Íslandi er til staðar ónýtt umframraforka sem duga myndi til að knýja allan bílaflota landsmanna væri honum skipt í rafbíla. Rafmagn er aðgengilegt um mest allt land og því eru allir grunninnviðir til staðar, þótt sums staðar þurfi að efla flutningsgetu raflína. Reikna má með að hver hraðhleðslustöð kosti að jafnaði um fimm milljónir króna og fyrir nokkur hundruð milljónir og á nokkrum mánuðum mætti koma upp öflugu neti slíkra stöðva á öllu landinu. Ekki þarf að hafa mörg orð um yfirburði raforkunnar. Hún hefur a.m.k. þrefalt hærri nýtnistuðul en allt brennsluefni og kostar aðeins 5-10% af því sem jarðefnaeldsneytið kostar.

Framtíðin er komin

Tímabært er að endurskoða þá „allra kosta“-stefnu sem opinberlega er til staðar um orkuskipti í samgöngum. Að láta markaðinn ráða för í þessu máli er að mínu mati álíka heppilegt og ef olíufélögin og raforkufyrirtækin hefðu mótað húshitunarstefnuna fyrir 30-40 árum. Þá hafa einstök fyrirtæki í umferðargeiranum lítinn ávinning af því að rafbílar nái hratt fótfestu hér á landi.

„Rafbílavæðing er ekki lengur framtíðin, hún er nútíminn“ svo vitnað sé í orð formanns orku- og umhverfisnefndar norska stórþingsins fyrir nokkru.




Skoðun

Sjá meira


×