Skoðun

Týnda kostnaðaráætlunin og Orkustofnun

Sif Konráðsdóttir skrifar
Á miðvikudag birtist grein eftir mig í blaðinu þar sem ég sagði frá falleinkunn sem Orkustofnun fékk í skýrslu norskrar systurstofnunar hennar frá 2011 og leyfisveitingu fyrir Suðvesturlínu frá síðustu viku.

Í skýrslu norsku systurstofnunarinnar er líka fjallað um úrskurðarnefnd sem komið var á fót til að endurskoða stjórnsýsluákvarðanir Orkustofnunar. Sú nefnd naut ekki trausts hagsmunaaðila skv. skýrslunni.

Því miður virðist úrskurðarnefndin ekki vera betur í stakk búin til að valda eftirlitinu en Orkustofnun sjálf. Þannig var í síðasta úrskurði hennar, uppkveðnum í september sl., fallist á þá ákvörðun Orkustofnunar að trúnaður skyldi gilda um kostnaðaráætlun er Landsnet kvaðst hafa gert um jarðstreng frá Blöndu til Akureyrar.

Þessi höfnun Orkustofnunar var gerð án þess að athuga kostnaðaráætlunina. Alvarlegra er þó að Orkustofnun hafði hafnað aðgangi að kostnaðaráætluninni án þess að staðreyna að hún væri yfir höfuð til. Í ljós kom nefnilega að kostnaðaráætlunin var ekki til; hún var sögð týnd.

Úrskurðarnefnd raforkumála sagði réttilega að Orkustofnun hefði ekki athugað hvert væri efni skjalsins sem stofnunin taldi að gæta ætti trúnaðar um.

Úrskurðarnefndin sagði jafnframt að hefði Orkustofnun gert það hefði hún komist að því að skjalið væri ekki til. Ljóst væri því að stofnunin hefði ekki rannsakað málið eins og skylt er í stjórnsýslunni. Þrátt fyrir þetta ógilti ekki úrskurðarnefndin málsmeðferðina, heldur staðfesti hún að trúnaður skyldi gilda um kostnaðaráætlun – sem er ekki til.




Skoðun

Sjá meira


×