Skoðun

Útvarp – lifandi afl (í tilefni uppsagna)

Guðrún Hannesdóttir skrifar
„Útvarpið er dásamlegur hlutur, það lætur rætast drauma kynslóðanna um hrafna Óðins, Mímisbrunn, viskustein.“

Þetta voru orð Arnar Arnarsonar skálds á upphafsárum útvarpsins. Fögnuður alþýðu manna yfir útvarpinu átti sér lítil takmörk og gleðin yfir því sem það miðlaði hungruðum hugum landsmanna hefur verið lýst svo víða að fyllt gæti marga hillumetra.

Í tímans rás hefur nýnæmið og tilfinningahitinn tvístrast og dofnað sem eðlilegt er með tilkomu sjónvarps og fleiri rása.

Nú held ég að kominn sé tími til að skerpa hugsunina á ný. Rás 1 hefur löngum haft sérstöðu hvað snertir tengsl og skyldleika við skýr og háleit markmið útvarps í árdaga. Fjölbreytni, vönduð dagskrárgerð og öflug nýliðun meðal kvenna hefur enda skapað henni traust umfram aðrar rásir.

Enginn getur séð fyrir hvaða óafturkræf áhrif það mun hafa ef menn lama útvarpið, fæla frá og segja upp menntuðu, þjálfuðu og fágætu starfsfólki sem er kjarni starfseminnar í dag. Án kjarna – ekkert líf.

Ef að líkum lætur skapast með þeim aðgerðum meira svigrúm fyrir ódýrt og innihaldsrýrt efni og innistæðulausa æsingaþætti, sem nóg er af fyrir og efla varla skilning okkar eða ratvísi um menningarlendur nútíðar eða fortíðar.

Útvarpið er sterkur þáttur í samvitund þjóðarinnar og lifandi afl í mótun og varnarbaráttu íslenskrar tungu og menningar.

Það á nú í vök að verjast og sótt er að því úr ýmsum áttum. Lokist sú vök kann að verða bið á að hún opnist að nýju.Við yrðum nauðbeygð að gera okkur að góðu það sem úti frýs…og ættum þá ekki betra skilið.




Skoðun

Sjá meira


×