Skoðun

Hönnunarnám á Íslandi

Sigrún Alba Sigurðardóttir skrifar
Í síðustu viku kom út stórt hátíðarblað af tímaritinu Nýju lífi. Í tímaritinu er fjallað um íslenska hönnun í ólíku samhengi. Meðal annars er fjallað um verk kennara og fyrrum nemenda við Listaháskólann í tískuþáttum blaðsins og á óskalista ritstjórnar fyrir jólin eru áhugaverð verk eftir kennara skólans.

Á forsíðu blaðsins er hins vegar talað um rýrt hönnunarnám við Listaháskólann og í forsíðuviðtali er fjallað um Hönnunar- og arkitektúrdeild af töluverðri vanþekkingu. Tímaritið Nýtt líf er án efa lesið víða og mögulega af einstaklingum sem áhuga hafa á hönnun en hafa ekki kynnt sér starfsemi deildarinnar sérstaklega. Sem starfandi deildarforseta við deildina langar mig því að draga fram nokkur meginatriði.

Skapandi umbreyting

Við Hönnunar- og arkitektúrdeild eru starfræktar fjórar námsbrautir, í arkitektúr, vöruhönnun, grafískri hönnun og fatahönnun, auk þess sem boðið hefur verið upp á þverfaglegt meistaranám í hönnun frá árinu 2012. Í Hönnunar- og arkitektúrdeild er lögð mikil áhersla á hönnun sem skapandi umbreytingu sem getur haft afgerandi áhrif á hvaða hráefni eru notuð og hvernig, hvernig fólk hegðar sér og upplifir sjálft sig í samskiptum við aðra og í stærra samhengi samfélags og umhverfis, og hvernig gildismat mótast og verðmæti eru sköpuð.

Í þeim skilningi er ekki átt við verðmætasköpun þar sem þúsundkallar bæta við sig núllum heldur verðmætasköpun sem á sér stað þegar hönnuður greinir ónýtt tækifæri í því hvernig hægt er að nýta hráefni, móta áður ókannaðar leiðir og tengja saman ólíka hluti. Þannig hugsar hann ferlið frá upphafi til enda þannig að afurðin sem að lokum verður til hafi ekki aðeins gildi vegna fagurfræðilegra eiginleika heldur hafi áhrif út fyrir sjálfa sig.

Markmið með námsbraut í vöruhönnun er ekki að gera nemendur færa um að hanna neysluvörur sem fjöldaframleiddar eru af ódýru vinnuafli á svæðum sem okkur eru fjarlæg. Markmiðið er að útskrifa nemendur sem hafa þekkingu og hæfni til að nota hönnun sem breytingarafl til batnaðar. Í því sambandi er lögð mikil áhersla á að nemendur læri að hugsa eigin hönnun í stærra samhengi og hugsa staðbundna þætti í hnattrænu samhengi.

Sérstaða

Listaháskóli Íslands hefur mikla sérstöðu meðal háskóla á Íslandi og einnig í alþjóðlegu samhengi. Hann er eina stofnunin hér á landi sem býður upp á nám í ólíkum listgreinum á háskólastigi. Hönnunar- og arkitektúrdeild er stærsta deild skólans, með tæplega 200 nemendur sem stunda nám á fimm námsbrautum, námsbraut í arkitektúr, vöruhönnun, grafískri hönnun, fatahönnun og í meistaranámi.

Mikill metnaður hefur verið lagður í að tryggja gæði námsins svo að nemendur eigi bæði möguleika á að skapa sér starfsvettvang og sérstöðu sem hönnuðir í íslensku samfélagi og að komast inn í góða listaháskóla erlendis þar sem þeir geta sérhæft sig enn frekar. Margir nemendur hafa valið að nýta þá menntun sem þeir hafa fengið í Listaháskólanum til þess að starfa sem leiðandi hönnuðir í íslensku samfélagi og setja mark sitt á íslenskt hönnunarsamfélag.

Sem dæmi um vaxtarbroddinn í hönnunarnáminu má benda á að fjórir fyrrverandi nemendur Listaháskólans fengu styrk úr Hönnunarsjóði Auroru í síðustu viku, og í þeim hópi voru þrír nemendur sem hafa útskrifast á síðustu tveimur árum. Fagsamfélagið virðist því hafa mikla trú á þeirri þekkingu og færni sem nemendur Listaháskólans afla sér. Nemendur og kennarar Listaháskólans hafa einnig vakið athygli almennings og fjölmiðla fyrir góða og framsækna hönnun. Þetta sést vel ef dagblöðum og tímaritum er flett þar sem fjallað er um íslenska hönnun og má í því sambandi til dæmis benda á nýjasta tölublað Nýs lífs þar sem hönnun nokkurra fyrrverandi nemenda er haldið á lofti.

Mörg þeirra sem útskrifast úr hönnun og arkitektúr í Listaháskólanum sjá mikilvægi þess að mennta sig enn frekar og fara í framhaldsnám. Fyrir þau sem ætla sér að verða arkitektar er framhaldsnám raunar nauðsynlegt því að nám til BA-prófs í arkitektúr veitir ekki starfsréttindi. Frá árinu 2012 hefur verið boðið upp á framhaldsnám í hönnun við Listaháskólann. Um er að ræða alþjóðlegt nám sem leiðir til meistaragráðu. Nemendur og kennarar koma víða að og nú stunda tuttugu nemendur frá ýmsum löndum meistaranám við skólann. Forgangsverkefni er að bæta við meistaranámi í arkitektúr svo að nemendur í þeirri grein geti orðið fullnuma hér á landi. Það er ekki síst mikilvægt þar sem ekki allir hafa tök á því að fara í nám erlendis.

Þeim nemendum sem farið hafa í framhaldsnám erlendis eftir að hafa stundað BA-nám við Hönnunar- og arkitektúrdeild hefur vegnað afar vel og hafa komist inn í marga af bestu hönnunarskólum í Evrópu og Bandaríkjunum. Við sem störfum við deildina lítum á þá staðreynd sem staðfestingu á því að við séum að gera góða hluti. Ljóst er að við jafn fámenna deild og Hönnunar- og arkitektúrdeild er mikilvægt að velja vandlega þær áherslur og leiðir sem móta námið.

Í því sambandi höfum við sérstaklega litið til þeirra skóla sem eru framúrskarandi í alþjóðlegu samhengi, s.s. Design Academy í Eindhoven og Central Saint Martins og Architectural Association í Bretlandi, en kennarar deildarinnar þekkja þessa skóla vel og margir þeirra hafa sjálfir stundað þar nám. Í fremstu hönnunarskólum heims er litið á hönnun sem skapandi umbreytingu og mikil meðvitund er um ábyrgð hönnuða í samfélaginu.

Eins og áður sagði er þessari sömu stefnu fylgt í Listaháskólanum og kappkostað að hönnun byggi ætíð á því að finna nýjar leiðir til að bæta samfélag og sambýli manns og náttúru. Mikil áhersla er því lögð á að nemendur tileinki sér ólíkar rannsóknaraðferðir, þekkingu á sinni faggrein og gagnrýna hugsun.

Í námsbraut í vöruhönnun sækja nemendur til dæmis námskeið þar sem þeir vinna með tveimur ólíkum framleiðslufyrirtækjum á Íslandi og finna leiðir til að samþætta eiginleika þessara fyrirtækja í því skyni að sýna fram á nýja möguleika til framleiðslu. Þá hafa nemendur unnið með íslenskum bændum í því að hugsa upp leiðir til að nýta það hráefni sem verður til í íslenskum landbúnaði á nýjan hátt og hanna þá bæði ferli og fullunna vöru. Nú í vetur hafa nemendur til dæmis unnið að því að finna leiðir til að skapa verðmæti úr viði sem fellur til við skógrækt á Íslandi.

Samtalið mikilvægt

Hönnunar- og arkitektúrdeild leggur jafnframt mikið upp úr því að vera í lifandi samtali við fagsamfélag hönnuða á Íslandi og erlenda samstarfsaðila. Erlendir gestakennarar koma og kenna við deildina auk þess sem kennurum og nemendum gefst tækifæri til að sækja starfsþjálfun og menntun til annarra landa í gegnum alþjóðleg samstarfsnet sem Listaháskólinn á aðild að. Þá hefur verið lagður metnaður í að efla tengsl og samstarf við aðra háskóla á Íslandi.

Mikilvægt er að skapa forsendur fyrir því að nemendur í ólíkum skólum skilji hugsunarhátt og tungumál hvers annars til þess að þeir geti starfað saman í framtíðinni. Hönnunar- og arkitektúrdeild hefur til dæmis átt í góðu samstarfi við kennara í verkfræði, viðskiptafræði, tölvunarfræðum og félagsvísindum við bæði Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands auk þess sem samstarf er við ólíkar deildir innan Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Kennarar úr þessum skólum hafa komið og kennt við deildina og nemendur hafa sótt sameiginleg námskeið þar sem miðað er að samþættingu ólíkra fræðigreina.

Nú í vetur hafa kennarar Hönnunar- og arkitektúrdeildar haldið hálfsmánaðarlega fyrirlestra þar sem þeir fjalla um eigin hönnun og rannsóknir og áherslur í kennslu. Þessir fyrirlestrar eru opnir almenningi og öll þau sem vilja koma og kynna sér það starf sem fram fer innan deildarinnar eru velkomin.

Þá má benda á að föstudaginn 6. desember verður svo haldið samræðuþing í húsnæði Listaháskólans að Þverholti 11 undir yfirskriftinni „Hönnun og listir á umbrotatímum: Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á hönnun og listir“. Þátttakendur í samræðuþinginu eru Guðni Elísson, prófessor við Háskóla Íslands, Katrín Káradóttir fatahönnuður, Dóra Ísleifsdóttir, grafískur hönnuður, Garðar Eyjólfsson vöruhönnuður og Halldór Eiríksson arkitekt en öll eru þau kennarar við deildina. Samræðuþingið er öllum opið, bæði fagfólki og öðrum sem áhuga hafa á hönnun í samfélagslegu samhengi og má heita gott dæmi um þá kraftmiklu, gagnrýnu og skapandi deiglu sem á sér stað innan veggja Listaháskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×