Skoðun

Bréf til bjargar lífi

Bryndís Bjarnadóttir skrifar
Bréf þín bera árangur. Taktu þátt í bréfamaraþoni Amnesty International og veittu þeim von sem búa við mannréttindabrot um heim allan.



Ef þú heldur að það sé gamaldags að skrifa bréf og tilgangslaust að setja blek á blað á tímum Facebook og Twitter, lestu þá þakkarbréf Birtukan Mideksa.

„Ég eygði eitt sinn enga von um frelsi. Ég er einstæð móðir og fyrrverandi leiðtogi stjórnarandstöðuflokks í Eþíópíu. Ég var handtekin árið 2005 og dæmd í lífstíðarfangelsi eftir að flokkur minn tók þátt í mótmælum í kjölfar kosninga í landinu.

Ég framdi engan glæp. Ráðist var gegn mér fyrir það eitt að ég tjáði pólitískar skoðanir mínar með friðsamlegum hætti. Í raun er ég heppin að vera á lífi.

Ég hafði verið í einangrun í Kaliti-fangelsi svo mánuðum skipti þegar þátttakendur í bréfamaraþoni Amnesty komu mér til hjálpar. Þúsundir einstaklinga kröfðust þess að ég hlyti frelsi.

Bréf ykkar vernduðu mig á versta tímabili ævi minnar. Þið voruð rödd mín þegar rödd mín heyrðist ekki. Bréf ykkar héldu voninni lifandi þegar neyðin var mest.

Það er Amnesty International að þakka að ég hlaut frelsi í október 2010.

Ég er svo þakklát fyrir bréf ykkar og aðgerðir í mína þágu. Ég hvet ykkur til að halda áfram lífsbjargarverkum ykkar og grípa til aðgerða í þágu annarra.“

Fleiri þurfa nú hjálpar þinnar við. Taktu þátt í bréfamaraþoni Amnesty og bregstu við 12 áríðandi málum sem þurfa á athygli þinni að halda.

Það hefur aldrei verið einfaldara að taka þátt. Tilbúin bréf til stjórnvalda verða á staðnum. Þú getur einnig sent kort til fórnarlamba mannréttindabrota og blásið von í brjóst þeirra.

Í ár tekur Íslandsdeild Amnesty International þátt í bréfamaraþoninu í ellefta sinn og fer það fram á 14 stöðum á landinu. Finndu þann stað sem er næstur þér á amnesty.is og vertu með!

Við vonum að enginn láti sitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heimi.




Skoðun

Sjá meira


×