Skoðun

Hverju hefur jákvæður lífsstíll Íslendinga áorkað?

Gunnar Sigurðsson skrifar
Með hliðsjón af umræðunni um breyttan lífsstíl, sérstaklega breytt mataræði, er vert að halda á lofti hvað áunnist hefur í baráttunni gegn kransæðasjúkdómum á Íslandi síðastliðinn aldarfjórðung, að mestu leyti vegna jákvæðari lífsstíls. Kransæðasjúkdómur var algengasta dánarorsök miðaldra fólks á Íslandi seinni hluta síðustu aldar og vissulega eru hjarta- og æðasjúkdómar enn ein aðaldánarorsök Íslendinga, en í mun minni mæli en áður og koma nú að jafnaði fram síðar á ævinni.

Um þetta höfum við upplýsingar frá dánarmeinaskrá Hagstofu Íslands og kransæðaskráningu fyrir allt Ísland sem Hjartavernd hefur annast síðan árið 1980. Þessar skýrslur sýna að dauðsföllum af völdum kransæðasjúkdóms hefur fækkað um 80% meðal 75 ára og yngri á tímabilinu 1981-2006. Þannig deyja 300 færri Íslendingar árlega í þessum aldurshópi af þessum sökum en fyrir aldarfjórðungi. Kransæðaskráning Hjartaverndar sýnir að um það bil 500 færri einstaklingar fá kransæðastíflu árlega en fyrir aldarfjórðungi ef tíðnin hefði haldist óbreytt. Þetta vekur upp spurninguna; Hve stóran hluta af þessum lækkunum má rekja til þróunar á eftirtöldum sviðum síðastliðinn aldarfjórðung?

Áhættuþátta kransæðasjúkdóms meðal þjóðarinnar

Betri lyfjameðferðar

Meðferðar kransæðastíflu á sjúkrahúsunum.



Vísindafólk Hjartaverndar hefur reynt að svara þessari spurningu út frá víðtækum upplýsingum, sem safnað hefur verið með áratuga mælingum á áhættuþáttum kransæðasjúkdóma í Hóprannsókn Hjartaverndar, en einnig upplýsingum frá hjartadeildum spítalanna- og erlendum lyfjarannsóknum. Um þetta má lesa nánar í netútgáfu Plos One nóvember 2010.

Í samantekt sýnir þetta uppgjör að þrír fjórðu hlutar þessarar lækkunar á tíðni kransæðasjúkdóms og dauðsfalla af hans völdum megi rekja til breytinga á áhættuþáttum kransæðasjúkdóms sem orðið hafa meðal Íslendinga á þessu tímabili. Þannig minnkuðu reykingar um helming, sem skýrir um það bil fimmtung fækkunar kransæðatilfella, blóðþrýstingur lækkaði um 5 mmHg sem einnig skýrir um fimmtung lækkunarinnar, líkamshreyfing í frístundum jókst verulega, sem einnig hafði jákvæð áhrif (5%), en vaxandi líkamsþyngd og samfara henni tvöföldun á tíðni tegundar II af sykursýki hafði hins vegar neikvæð áhrif sem nam 10%.

Lækkun á kólesteróli

Það sem hafði hins vegar mestu áhrifin var lækkun á heildargildi kólesteróls í blóði Íslendinga á þessu tímabili, sem nam tæpu 1 mmol/L eða um það bil 15% hjá báðum kynjum. Þessi lækkun á þéttni kólesteróls skýrði rúmlega 30% af heildarfækkun kransæðastíflutilfella og dauðsfalla af hennar völdum á þessu tímabili eða meira en þau 25% sem skýrðust af inngripi lyfja og meðferðar á sjúkrahúsunum.

Þessa lækkun á kólesteróli meðal Íslendinga, í öllum aldurshópum fullorðinna samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar, má skýra með minni neyslu á smjöri og hörðu smjörlíki, feitu kjöti, heilmjólk og feitum mjólkurafurðum en aukinni notkun jurtaolíu við matargerð. Þetta hefur leitt til minni fituneyslu í heild sinni, en það sem skiptir þó meira máli, minni neyslu á mettaðri (dýra)fitu, frá því að vera meira en 20% af heildarorkunni í minna en 15% auk þess sem neysla transfitu minnkaði á þessu tímabili úr 2,0% í 1,4%.

Þessi æskilegi árangur hefur náðst meðal annars vegna ráðlegginga heilbrigðisyfirvalda og breyttrar áherslu matvælaiðnaðarins til að mæta kröfum neytenda.

Mér þykir vert að minna á þetta í umræðunni um breytingar á lífsstíl þessa dagana. Allir eru vissulega sammála um óæskileg áhrif viðbætts sykurs í matvæli og gosdrykkja í baráttunni gegn vaxandi offitu og sykursýki, sem áður var minnst á. En áður en ávextir og grænmeti eru skorin við trog og í staðinn ráðlagt feitt kjöt og beikon sem lífsstíll er vert að hafa í huga hvað reynslan hefur kennt okkur hér á Íslandi síðastliðinn aldarfjórðung.




Skoðun

Sjá meira


×