Skoðun

Faðmlög og fleira á framandi tungum

Halldór Þorsteinsson skrifar
Á ensku er „embrace“ bæði nafnorð og sögn og merkir því bæði faðmlög og faðma. Það á uppruna sinn að rekja til latneska orðsins „bracium“ = handleggur eins og reyndar fjöldi annarra orða á þeirri tungu. Sama er að segja um ítölsku sögnina „abbracciare“ og sömuleiðis þá spænsku „embrazar“.

En þegar kemur að frönsku sögninni „embrasser“ kemur sitthvað kyndugt og fróðlegt í ljós, sökum þess að hún merkir nú orðið sjaldnast að faðma heldur oftast eða eingöngu að kyssa. Hver kann að vera skýringin á því? Ef til vill sú að eftir að t.d. franskur karlmaður hefur tekið konu í faðm sinn, gengur hann jafnan einu skrefi lengra og getur ekki stillt sig um að kyssa hana, en þar með er ekki öll sagan sögð, vegna þess að koss á frönsku er „baiser“ k., en auk þess er til sögnin „baiser“, sem verður að flokkast undir ákaflega klámfengið orðbragð og er sambærilegt við íslenska sögn, sem ég tel, lesendur góðir tæplega prenthæfa hér.

En víkjum nú aftur að kossum áðurnefnda franska karlmannsins. Má ekki álykta sem svo að eftir langa og brennheita kossa sé hann manna líklegastur til að færa sig upp á skaftið ef svo má að orði komast og sé því reiðubúinn til miklu nánari ástaratlota en bara kossa?

Bendir þetta ekki ótvírætt til þess að ástríðulogi Frakka sé langtum heitari en hjá okkur sem búum á norðlægari slóðum?




Skoðun

Sjá meira


×