Skoðun

Prófkjör standi

Haukur R. Hauksson skrifar
Eftir niðurstöður prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er rekið upp ramakvein og upphefst krafa um að röðinni sé breytt, konur komi inn í efstu sætin o.s.frv. Það virðist gleymast að konur hafa kosningarétt í prófkjörinu til jafns við karla og gætu ef þær vildu tryggt konum góða kosningu ef það væri allt sem máli skiptir.

Raunin er hins vegar sú að frambjóðendur hafa kynnt sig og málefni sín fyrir flokksmönnum og um það er kosið. Tökum til dæmis ágreininginn um flugvöllinn. Áttatíu prósent Reykjvíkinga eru honum fylgjandi. Það er auðvitað mikilvægt kosningamál, hvað sem hver segir. Ætti þá frambjóðandi sem er alfarið á móti vellinum í Vatnsmýrinni að vera færður upp til áhrifa eingöngu á grundvelli kynferðis, og þar með vera kominn í áhrifsstöðu með vallarmálið, þvert á óskir meirihluta þeirra er mættu á kjörstað?

Í síðustu kosningum sjálfstæðismanna í Garðabæ voru þeir er grandalausir tóku þátt í prófkjöri hafðir að fíflum og listaröðunin samkvæmt óskum kjósenda höfð að engu. Menn hljóta að velta því fyrir sér til hvers þeir séu yfirleitt að hafa fyrir því að mæta á kjörstað ef ákvörðun um endanlega niðurröðun á listann á svo að vera í höndum einhverra allt annarra.




Skoðun

Sjá meira


×