Viðskipti innlent

Sóknarfæri gefast þegar námsskrár eru endurskoðaðar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Fyrirtæki í örum vexti þarf stöðugt að vera á höttunum eftir fjármagni til að standa undir útþenslu starfseminnar. Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjori Mentors, segir að nú sé kerfið til, það sem vanti sé fé til kynningar og markaðsstarfs.
Fyrirtæki í örum vexti þarf stöðugt að vera á höttunum eftir fjármagni til að standa undir útþenslu starfseminnar. Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjori Mentors, segir að nú sé kerfið til, það sem vanti sé fé til kynningar og markaðsstarfs. Fréttablaðið/Daníel
FréttaviðtalViðmótsbreyting sú sem nýverið var gerð á Mentor-námsumsjónarkerfinu er fyrsta skrefið í að innleiða nýja kynslóð hugbúnaðarins. Í nýrri útgáfu er að sögn Vilborgar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Mentors, að finna allmikla viðbót við kerfið og nýjar einingar.

„Við byrjuðum á Íslandi, en viðmótið fyrir foreldra og nemendur er að koma út í öllum löndum. Síðan erum við að sérsníða kerfið að nýrri íslenskri aðalnámsskrá,“ segir Vilborg. Í þeirri vinnu segir hún líka byggt á aðlögun kerfisins að nýrri námsskrá Svía, Breta og Svisslendinga.

Ný kynslóð á nýju ári

„Við erum að gera kerfi sem getur aðlagast mismunandi námsskrám. Námsskráin er að segja má hjartað í kerfinu okkar og um hana snúast verkferlarnir í skólunum.“ Innleiðingu nýrrar námsskrár hér segist Vilborg telja eitt af mikilvægustu verkefnum þjóðarinnar.

„Í grunninn snýst þetta um hvers konar nám við viljum veita börnunum okkar og hvers konar hæfni við viljum að börnin okkar búi yfir þegar þau koma út í lífið. Þetta snýst um framtíð lands og þjóðar, ekki bara einhver verkefni inni í ráðuneyti.“

Vilborg segir von á fyrstu einingum nýju kynslóðarinnar fyrir íslenska skóla í byrjun næsta árs. „Þetta kerfi hefur þegar verið tekið í notkun í Bretlandi og verður tilbúið í ágúst í Svíþjóð, en innleiðing er mislangt komin eftir mörkuðum.“

Nýtt viðmót Mentors. Fyrsta skrefið í innleiðingu á nýrri kynslóð námsumsjónarhugbúnaðar Mentors var breyting á viðmóti í vefumhverfi notenda.Mynd/Skjáskot
Fimmtungshlutur í Svíþjóð

Kerfið segir Vilborg hins vegar svo öflugt að það standi undir fleiri milljónum notenda. „Við hugsum þetta sem kerfi sem hægt er að fara með til Evrópu og erum að gera það.“

Núna er Mentor hins vegar starfandi í fimm löndum og sinnir um hálfri milljón notenda. „Við erum að stíga fyrstu skrefin inn á markaði eins og Bretland, Þýskaland og Sviss. Í Svíþjóð erum við í sterkri stöðu með um 20 prósenta markaðshlutdeild.“

Tækifæri Mentors segir Vilborg hins vegar byggjast á þeim breytingum sem unnið er að í kennsluumhverfi landanna og það kalli á aukið utanumhald kennara. Núna sé í auknum mæli notast við margvíslega nýmiðlun, rafræn kennslugögn, öpp og netið auk bóka. „Þeir eru að breyta námsskrám sínum og þá opnast gluggi til að koma inn á markaðinn með nýja og ferska lausn sem byggist á þekkingu frá fimm löndum.“

Keppinautarnir segir Vilborg að séu mestanpart staðbundin fyrirtæki, en sérstaða Mentors felist í víðfeðmari nálgun þar sem nýtt sé þekking á fleiri mörkuðum og svæðum. Núna segir Vilborg áherslu lagða á markaði þar sem fyrirtækið hafi náð fótfestu en stefnan sé hins vegar á starfsemi á heimsvísu.

Peninga þarf í uppbyggingu

„Tækifærin eru þarna. Í geiranum er gríðarlegur vöxtur, eins og sést til dæmis á notkun nýrrar tækni, hvort sem það eru spjaldtölvur eða krakkar að nota símana sína. Til þess að tryggja að unnið sé eftir markmiðum aðalnámsskrár í þessu nýja umhverfi þarf kerfi sem nær utan um alla þessa hluti.“

Vilborg segir stefnuna hjá Mentor setta á áframhaldandi uppbyggingu og það kalli á fjármagn. „Við erum eitt af þessum svokölluðu vaxtarfyrirtækjum með gríðarlega möguleika og erum að fjárfesta bæði í lausninni og í sókn inn á ný markaðssvæði.“

Að tryggja fjármagn til vaxtar geti aftur á móti verið þungur róður á stundum. „Við erum í þeirri stöðu að vera háð gjaldeyrishöftum og það er snúið fyrir erlenda fjárfesta. Svo erum við eitt af þessum fyrirtækjum sem geta bara tekið út vöxt á erlendum mörkuðum.“

Því sé fjár þörf, en það sé viðvarandi slagur. Fyrirtækið sé að verða komið með tæknilausnina, sem sé mikilvægt fyrir fjárfesta, en nú vanti fjármagn í sölu og markaðssetningu. „Og það er náttúrulega draumur fjárfesta að koma inn í þannig fyrirtæki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×