Skoðun

Þrjú ár frá breytingum

María Rúnarsdóttir skrifar
Fagdeild félagsráðgjafa, sem vinna að málefnum fatlaðs fólks, hefur verið hugleikið hver staðan er í þjónustu við fatlað fólk nú þegar hartnær þrjú ár eru liðin frá tilfærslu þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga. Til að fá yfirsýn yfir stöðuna sendi fagdeildin félagsmálastjórum fyrirspurn um hvað brynni helst á í sveitarfélögunum.

Í svörum margra kemur fram að nærþjónustan sé meiri eftir að þjónustan fluttist til sveitarfélaganna sem hafi betri sýn á þarfir einstaklingsins, boðleiðir séu styttri, aðgengi að þjónustunni sé betra og þarfir fatlaðs fólks sýnilegri. Hagsmunasamtök fatlaðs fólks og réttindagæslumenn hafa þó bent á að í Reykjavík séu boðleiðir of langar og sveigjanleiki í þjónustunni lítill.

Breytingar á lagalegu umhverfi samhliða tilfærslu þjónustunnar og það hve flókið er að samþætta þjónustu við fatlað fólk annarri félagslegri þjónustu var ærið verkefni fyrir stærri sveitarfélögin. Í undirbúningi tilfærslunnar var gert að skilyrði að sveitarfélög með færri en 8.000 íbúa mynduðu sameiginleg þjónustusvæði. Þetta hefur sums staðar leitt til þess að það er óskýrt hver á að eiga frumkvæði að frekari uppbyggingu þjónustu þegar umsækjendur koma hver frá sínu sveitarfélaginu. Þá er ljóst að óvissan um framtíð atvinnumála fatlaðs fólks, það er hvort þau flytjist til sveitarfélaganna eða verði áfram á hendi ríkisins, hefur staðið þróun þjónustunnar fyrir þrifum og er það áhyggjuefni.

Breytt hugmyndafræði

Hugmyndafræði í þjónustu við fatlað fólk hefur verið að breytast á undanförnum árum. Áhersla er nú lögð á samfélagslega þátttöku einstaklingsins og sjálfstæða búsetu með stuðningi. Biðlisti Brynju hússjóðs gefur glöggt til kynna hvernig staðan er á höfuðborgarsvæðinu en þar bíða nú um 270 einstaklingar eftir leiguhúsnæði og er eftirspurnin mest eftir litlum íbúðum. Það er mismunandi eftir þjónustusvæðum hvar skórinn kreppir en sveitarfélögin nefndu mörg að brýnt væri að huga að uppbyggingu búsetuúrræða og hafa sum hver þegar hafið þá vegferð og sett sér áætlanir þar um. Það má ljóst vera að sveitarfélögin eiga ærin verkefni fyrir höndum eigi að takast að eyða biðlistum eftir húsnæði og búsetuþjónustu fyrir fatlað fólk.

Félagsráðgjöfum hefur verið tíðrætt um þá ólíku menningu sem ríkir í félagsþjónustu og í þjónustu við fatlað fólk. Fagdeild félagsráðgjafa sem vinna að málefnum fatlaðs fólks vill beina því til þjónustuveitenda að hafa hugfast að umönnunarhyggja getur hindrað sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins og því er mikilvægt að vera stöðugt á verði svo þjónustan geti verið einstaklingsmiðuð og í anda Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Stjórn fagdeildarinnar vill einnig hvetja stjórnvöld til þess að leggja kapp á að halda áfram þróun atvinnumála fyrir fatlað fólk því vinna er lykilatriði í samfélagslegri þátttöku fólks, líka þess sem býr við fötlun.




Skoðun

Sjá meira


×