Skoðun

Tölum saman – vinnum saman!

Sigrún Birna Björnsdóttir skrifar
Umræðan um kennarastarfið og framhaldsskólana undanfarnar vikur hefur verið niðurdrepandi. Upphrópanir eins og „styttum nám til stúdentsprófs“ bæta ekki sjálfsmynd stéttarinnar og hugmyndir almennings um menntakerfið. Þeir sem hrópa hæst, tala menntakerfið og starf kennaranna niður á meðan þeir ættu einmitt að gera þveröfugt. Alla fræðilega umræðu vantar, engar úttektir á sannri stöðu framhaldsskólanna eru gerðar og samvinnu skortir sárlega. Það er ekki raunhæft að hrópa.

Í framhaldsskólum landsins fer fram vinna að stórtækum kerfisbreytingum sem geta m.a. leitt til styttra náms til stúdentsprófs. Kennarar og starfsgreinaráð eru í óðaönn að endurskipuleggja allt nám í takt við ný framhaldsskólalög sem taka eiga gildi árið 2015. Upphrópanirnar skapa ekki vinnufrið, við vitum ekki hvort öll okkar vinna nýtist eða ónýtist þar sem samtal og samvinnu vantar milli okkar og þeirra sem hrópa. – Af hverju þessi hróp þegar vinna að mikilvægum breytingum á sér stað? – Af hverju ræðum við ekki einfaldlega saman? Og finnum málinu farveg sem er nemendum í hag. Þeir eru jú aðalatriðið er það ekki?

Velja stúdentspróf

Stytting námstíma til stúdentsprófs er af hinu góða ef hún er unnin rétt. Núna er staðan sú, eins og fram kom í máli Gylfa Þorkelssonar í grein sinni „Hlauptu, krakki hlauptu“ á vef Kennarasambands Íslands, að 95% hvers árgangs sem lýkur grunnskóla fara í framhaldsskóla. Þrátt fyrir töluvert framboð iðnnáms og styttri brauta annarra en hefðbundinna stúdentsprófsbrauta í framhaldsskólum virðast flestir 16 ára unglingar sækja mest inn á stúdentsprófsbrautir. Til samanburðar fara um 40% árgangs finnskra ungmenna inn á verknámsbrautir; Finnar þekkja vart brottfall (sjá: Cedefob. 2012. Finland, VET in Europe – Country report).

Brottfall er alþekkt vandamál á Íslandi og má vafalítið m.a. rekja til þessa háa hlutfalls nemenda sem sækir á beinar stúdentsbrautir. Margir finna sig ekki í því námi sem þeir völdu, ráða illa við það og gefast upp og hætta eða skipta um nám sem leiðir til lengri skólavistar en þörf er á. Ég fæ ekki séð hvernig bein stytting, eins og rædd hefur verið undanfarið, kæmi núverandi brottfallshópi til góða enda hafa engin haldgóð rök komið fram um að stytting námsins muni minnka brottfall. Brottfall er kostnaðarsöm breyta sem hægt væri að lækka umtalsvert með nýrri hugsun og nýjum leiðum.

Markviss samvinna

Stefnuleysi og rótleysi nemenda er ein nokkurra orsaka brottfalls. Í framhaldsskólum fer engin markviss starfskynning fram, samvinna framhaldsskóla og atvinnulífs er takmörkuð við iðnbrautir og ungmenni þekkja lítið sem ekkert þau atvinnutækifæri sem þeim bjóðast í framtíðinni. Hér blasir við tækifæri og nú er lag.

Atvinnulífið kvartar sáran undan því að framhaldsskólar þjóni illa hagsmunum þeirra og mennti ekki starfskrafta til framtíðar. Samvinna þessara tveggja meginstoða íslensks hagkerfis væri ein leið og kæmi öllum vel. Saman gætum við skipulagt markvisst grunnstarfsnám sem byggðist á því að óráðnir nemendur framhaldsskóla gætu valið að fara í starfskynningaráfanga og einfalda þjálfun í ákveðnum störfum undir ströngu regluverki og nákvæmri markmiðssetningu. Þannig færi nemandinn út á vinnumarkaðinn og öðlaðist dýrmæta reynslu og þekkingu sem hann fær ekki inni í skólanum. Um leið er líklegt að nemandinn gerði sér gleggri mynd af þeirri framtíð sem bíður og kæmi auga á leiðina sem hann vill fara. Hvenær á námstímanum og hvernig kynningin færi fram mætti útfæra síðar en samvinna eins og hér um ræðir kæmi öllum vel. Í beinu framhaldi gætu framhaldsskólar og atvinnulíf skipulagt saman viðeigandi námsbrautir.

Samvinna eins og þessi yrði farsæl og mun betri leið til að minnka brottfall, vísa nemendum á greiðfæra braut og stytta um leið núverandi námstíma þeirra sem er of langur.

Illa ígrunduð, órannsökuð og vanunnin stytting mun skemma meira en bæta.

Tölum frekar saman og vinnum saman – það er öllum í hag!




Skoðun

Sjá meira


×