Skoðun

Alþjóðlegur dagur námsmanna

Laufey María Jóhannsdóttir skrifar
Kæru námsmenn, ég vil óska ykkur öllum til hamingju með Alþjóðlegan dag námsmanna. Þessi dagur er haldinn ár hvert til að heiðra minningu námsmanna í Prag sem stóðu fyrir miklum mótmælum árið 1939 gegn því að nasistar hertækju landið. Öllum framhalds- og háskólum í landinu var lokað og voru rúmlega 1.200 manns handteknir og sendir í útrýmingarbúðir nasista. Níu leiðtogar námsmannahreyfinga voru teknir af lífi án réttarhalda að skipun Hitlers.

Við sem námsmenn á Íslandi í dag lifum á tímum mikilla breytinga í menntakerfinu. Nú þegar er hafin vinna við að stytta námstímann um eitt ár og eru skólar þegar byrjaðir að innleiða nýja kerfið í framhaldsskólunum. Þetta er vissulega skref fram á við en við eigum ennþá langt í land.

Brotthvarf úr framhaldsskólum á Íslandi er grafalvarlegt vandamál. Heildarfjöldi nemenda sem hverfa frá námi er hvergi eins hár og á Íslandi samanborið við önnur norræn ríki. Stór partur af því vandamáli er að gífulegur munur er á kynjunum en töluvert fleiri strákar hverfa frá námi miðað við stelpur. Ef litið er á skýrslur frá OECD um fjölda útskrifaðra úr framhaldsskóla má sjá að við sitjum í 2. sæti af 29 löndum yfir stelpurnar sem við náum að útskrifa en aðeins í 20. sæti af 29 löndum yfir útskrifaða stráka. Ef ekki verður tekið á þessu gætum við verið að horfa á félagslega og efnahagslega vanvirkni karla í samfélaginu á komandi áratugum.

Staða iðnnáms á Íslandi er sú slakasta á öllum Norðurlöndunum. Ég tel það ekki vera vegna þessa að við Íslendingar höfum ekki áhuga á iðnnámi eða séum ekki góð í því. Við erum einfaldlega ekki að beina ungum námsmönnum á námsbrautir eftir þeirra áhugasviði. Við þurfum að hætta að spyrja spurningar eins og „í hvaða skóla ætlar þú“ en spyrja frekar „í hvers konar nám ætlar þú“?

Hvergi annars staðar á Norðurlöndunum eru laun framhaldsskólakennara jafn lág. Efnahagskreppan hefur sett strik í reikninginn en við höfum nærtækt dæmi frá Finnlandi um það hvernig hægt er að efla menntakerfið á krepputímum. Við upphaf efnahagskreppu Finna í byrjun 10. áratugarins var ákveðið að auka fjármagn til menntakerfisins. Eitt stærsta og jafnvel veigamesta skrefið sem var tekið var að hækka laun kennara. Í dag búa Finnar við besta menntakerfi í heiminum. Álit allra sérfræðinga er að árangurinn sem Finnar hafa náð sé vegna þess að þeir séu með bestu kennarana. Þar voru gæði náms ekki skert með því að stækka bekki eða með öðrum aðgerðum sem grundvallaðar eru á skammtímasjónarmiðum.

Staðreyndin er sú að launalega séð er ósköp lítil hvatning fyrir námsmenn til að velja kennarastarfið sem atvinnu. Við sjáum fram á mikla eftirspurn eftir kennurum en miklu minna framboð. Stór hópur kennara fer á eftirlaun innan nokkurra ára og ef fram fer sem horfir verða ekki nógu margir útskrifaðir kennarar til þess að taka við stöðum þeirra.

Menntun er máttur og ég get ekki hugsað mér betri kost til þess að fjárfesta í. Við viljum mennta unga námsmenn eins vel og kostur er á. Við viljum fá besta fólkið í það mikilvæga og ábyrgðarmikla starf að mennta komandi kynslóðir. Við viljum eiga rétt á að fá aðgang að góðri menntun og góðu starfsumhverfi, bæði fyrir nemendur og kennara.

Starfsumhverfi þar sem lítið sem ekkert brotthvarf er til staðar og þar sem bæði iðnám og bóknám blómstra; starfsumhverfi þar sem við gefum öllum færi á því að nýta sína hæfileika og getu til hins ýtrasta.

Í dag er baráttudagur námsmanna. Þess vegna hvet ég hvern einasta námsmann til að sýna baráttuhug. Sýnum minningu námsmanna í Prag virðingu og berjumst. Sýnið það í verki, hversu stórt eða smátt sem það kann að vera. Berjist fyrir hagsmunum ykkar! Því þó að gæði menntunar okkar eigi að vera sjálfsögð eru þau það ekki, við þurfum að hafa fyrir þeim.






Skoðun

Sjá meira


×