Skoðun

Fjör gegn fátækt

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
Hvað eiga pönnukökubakstur og skólahreysti, altaristöflugerð, dans, bílaþvottur og sjoppurekstur sameiginlegt? Allt þetta var nýverið í boði á karnivali á Landsmóti ÆSKÞ í Reykjanesbæ. Karnivalið var skemmtilegt og mikið af fjöri á landsmótinu, en undirtónninn var alvarlegur. Á landsmóti var barist gegn fátækt á Íslandi.

Slík barátta fer fram með ýmsum hætti. Ein aðferð er að safna peningum í Framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar sem styrkir efnalítið ungt fólk til náms. Önnur er að auka meðvitund okkar allra um að fátækt sé yfirleitt til á Íslandi og vekja löngun þeirra sem nóg eiga til þess að deila með sér. Þriðja aðferðin er að tala saman og deila reynslu af því hvað felst í því að vera fátæk.

Einangrun getur verið hlutskipti þeirra sem ekki eiga peninga til að geta tekið þátt í félagslífi og geta ekki leyft sér það sem vinirnir geta. Einangrun getur aukið vonleysi og dregið úr lönguninni til þess að breyta eigin aðstæðum. Á landsmótinu keypti ég mér engla og bílaþvott. Ég horfði á dansatriði og fylgdist með ungu fólki ræða um fátækt. Ég fékk andlitsmálningu, keypti kandífloss og borðaði pönnukökur með krökkum sem höfðu ferðast langa leið til þess að taka þátt í mótinu. Þau voru saman komin til að berjast gegn fátækt í orði og verki.

Unga fólkið í kirkjunni fyllir mig von um fallegri og jafnari heim. Þau vilja láta til sín taka í baráttunni gegn fátækt. Það er verk að vinna og þau hafa slegið tóninn fyrir okkur öll. Landsmótið hafði yfirskriftina „Energí og trú“ því trúin gefur kraft. Þegar energí og trú fara saman er allt hægt. Við getum til dæmis útrýmt fátækt.




Skoðun

Sjá meira


×