Skoðun

Samkeppni er ekki niðurgreidd

Brynjar Smári Rúnarsson skrifar
Þann 28. október síðastliðinn birti Fréttablaðið á forsíðu frétt, sem unnin var upp úr ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um úttekt á bókhaldslegum aðskilnaði og kostnaðarbókhaldi Íslandspósts, sem birt var fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan. 



Í umfjöllun blaðsins var m.a. rætt við Hannes Hannesson, framkvæmdastjóra Póstdreifingar, sem dreifir Fréttablaðinu og er alfarið í eigu 365 miðla, útgáfufélags Fréttablaðsins. Þar kemur fram að framkvæmdastjórinn telur að alþjónusta Íslandspósts greiði niður samkeppnishlutann í dreifikerfi fyrirtækisins og að Íslandspóstur sé í ríkisrekinni samkeppni við einkaaðila.



Um langt skeið hefur svo borið við, að komið hafa athugasemdir við þá kostnaðargreiningu, sem Íslandspósti ber að vinna eftir, en niðurstaða hennar sýnir reiknaða afkomu sundurliðaða niður á afkomu einkaréttar, afkomu samkeppnisrekstrar innan alþjónustu og afkomu samkeppnisrekstrar utan alþjónustu. Í sumum tilvikum byggja þessar athugasemdir á misskilningi, en í öðrum tilvikum virðist vera um hreina rangfærslu að ræða, sem beinlínis er ætlað að ala á tortryggni varðandi verðlagningu á skylduþjónustu Íslandspósts.



Hlutverk Íslandspósts er ekki flókið. Fyrirtækið hefur einkarétt á dreifingu áritaðra bréfa, sem eru 50 g og léttari, en á móti hefur fyrirtækið svokallaða alþjónustuskyldu. Hún felst í því að Íslandspósti ber að dreifa um allt land bréfum og pökkum allt að 20 kg, sem falla utan einkaréttardreifingar Íslandspósts, óháð því hvort hagnaður eða tap er af þeirri þjónustu. 



Hingað til hafa samkeppnisaðilar ekki séð sér hag í því að sinna þessari þjónustu nema að litlu leyti og þá aðeins á þeim svæðum þar sem hagnaðarvon er. Verulegur viðbótarkostnaður fylgir þessari skyldu sem hvílir á Íslandspósti. Samkeppnishluti póstþjónustunnar ber þannig kostnað við dreifingu, sem skylt er að sinna en eðlilegar rekstrarlegar forsendur eru ekki fyrir. Þeim kostnaði þarf hagnaður af einkarétti að standa undir, enda er það væntanlega tilgangur einkaréttarins. Falli einkaréttur ríkisins niður þarf ríkisvaldið að finna nýja tekjuöflunarleið til þess að standa straum af þeim kostnaði, sem lögboðin alþjónusta í póstdreifingu felur í sér.



Engin dæmi um beina niðurgreiðslu

Íslandspóstur er ekki í ríkisrekinni samkeppni eins og framkvæmdastjóri Póstdreifingar heldur fram í forsíðufréttinni. Íslandspóstur er rekinn á einkaréttarlegum grunni fyrir sjálfsaflafé eins og Póstdreifing, en hefur einnig þá skyldu að halda uppi þjónustu um allt land, líka þar sem aðrir sjá sér ekki hag í að sinna henni. Þá skyldu tekur Íslandspóstur alvarlega eins og aðrar skyldur við eigendur sína, almenning í landinu, sem gera þá kröfu að fyrirtækið sé vel rekið og veiti góða þjónustu. Íslandspóstur vinnur nú sem fyrr að því að auka gegnsæi í kostnaðargreiningu svo auðveldara sé að glöggva sig á staðfærslu kostnaðar, en rétt er að taka fram að í áðurnefndri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar er áréttað að ekki hafi komið fram neitt dæmi um „beina niðurgreiðslu einkaréttar á kostnaði vegna samkeppnisrekstrar“.




Skoðun

Sjá meira


×