Skoðun

Opið bréf til Brynjars Níelssonar

Gríma Kristjánsdóttir skrifar
Kæri Brynjar.

Ég er ekki menntaskólastúlka, þú þarft ekkert að verða spenntur. Ég ætla að gera tilraun til að leiðrétta misskilning þinn varðandi vændi. Ég skal samt reyna að takmarka hrokann eins og ég get héðan af, eiginlega setja mig í móðurlega umvöndunarstílinn.

Ég virði það að við séum algjörlega ósammála um lagalega umgjörð vændis en ætla hér að útskýra hvers vegna ég sé ekki samræmi milli frelsis til að stjórna eigin líkama og þess að lögleiða vændi.



„Mannréttindi snúast nefnilega um rétt einstaklinga að ráða yfir eigin líkama og rétt þeirra til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa sér,“ sagðir þú í grein þinni á DV.is og þar er ég sammála þér. Mannréttindi snúast vissulega um að einstaklingar fái að ráða yfir eigin líkama og velja sér atvinnu en eins og Björk Vilhelmsdóttir tók fram í umræðum ykkar í þættinum Sunnudagsmorgunn á RÚV 3. nóvember síðastliðinn, þá er vændi oftast stundað af neyð, hvort sem neyðin er fátækt, fíkniefnavandi eða eitthvað annað. Þetta styðja fjölmargar rannsóknir sem hafa verið gerðar á vændi um heim allan.

Það er að mínu mati skylda samfélagsins að vernda borgara þess og þar með talin vændiskonur og -karla og veita þeim möguleika á að velja eitthvað annað. Þess vegna tel ég það mjög góða lausn að hafa lögin í þeirri mynd sem þau eru nú; vændiskaup eru ólögleg og milliganga um vændi er ólögleg en ekki vændi. Þar með refsum við ekki fólki sem hefur neyðst til að stunda vændi sem atvinnugrein, heldur þeim sem halda atvinnugreininni á lífi, nefnilega vændiskaupandanum og vændissalanum.

Í greinargerð með frumvarpi til hegningarlaga frá 2007, sem varð að lögum, þegar sala á vændi var gerð refsilaus, er fjallað um þetta og segir þar meðal annars: „Í öðru lagi er það sjónarmið, sem vegur mun þyngra, að þeir sem hafi viðurværi sitt af sölu kynlífs séu í flestum tilvikum illa settir andlega, líkamlega og félagslega. Þeir séu yfirleitt þolendur sjálfir, t.d. vegna fátæktar, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar (samkvæmt upplýsingum Stígamóta hafa 65–85% kvenna sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi). Þessi afstaða byggist á því sjónarmiði að vændi tengist alltaf neyð og því sé nær að veita seljanda félagslega, læknisfræðilega og fjárhagslega aðstoð í stað þess að refsa honum.“

Ég tel ekki að það skapi stóraukið öryggi vændiskvenna á vinnutíma að lögleiða vændi. Eins og Björk sagði í umræðum ykkar í þættinum Sunnudagsmorgunn, þá byggjast samskipti í þessum heimi á yfirráðum annars og þetta styðja rannsóknir. Vændiskaupandinn stjórnar þeim sem keyptur er og hann fær sínar langanir uppfylltar, það er ekki líkamlegt öryggi fyrir þann sem keyptur er, ekkert jafnræði gildir og ef hlutirnir fara úr böndunum er ekki beinlínis hægt að stoppa það. Kaupandinn hefur í raun full yfirráð yfir seljandanum/vörunni þó svo að það sé ekki samkomulagið, þetta eru andleg yfirráð. Þetta mun ekki breytast þó að vændi verði lögleitt að mínu mati.

Ég trúi því heldur ekki að konur eða karlar muni velja sér þessa starfsgrein eitthvað frekar ef þetta er lögleitt. Þetta verður áfram neyðarúrræði enda er kynlíf eitthvað sem flestir vilja stunda í jafnræði og af löngun en ekki þar sem annar ræður yfir hinum eða vegna þess að mann vantar pening. (Nú er ég svo sannarlega ekki að fordæma þá sem vilja stunda kynlíf þar sem samið er um yfirráð annars yfir hinum. Þá fær enginn borgað fyrir að vera og hegða sér eins og hinn vill.)

„Mér finnst alveg ótrúlegt hvað má tala niður til þessara kvenna, þær eru ekki sjálfs sín ráðandi, aðrir eru að nota þær, aðrir eru að misnota þær, það má gera svo lítið úr þeim, þetta er ekki þeirra vilji, þetta er annarra vilji, auðvitað vitum við að það er fólk að gera margt sem það vill ekki gera, ekki bara í vændi, þetta er kannski ekki óskastaða en þetta er samt einhvers staðar sjálfstæð ákvörðun,“ sagðir þú í umræðum í Sunnudagsmorgni.

En í umræðu um vændi er ekki verið að tala niður til þessara kvenna, það er verið að reyna að vernda þær með því að reyna að brjóta niður umgjörðina í kringum vændi. Það að lögleiða vændi myndi einungis gera fólki enn auðveldara að brjóta á vændiskonum en eins og hefur komið fram þá hafa 65-85% vændiskvenna orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi.

Rannsóknir sem hafa verið gerðar á vændi benda til að andlegt ástand einstaklinga sem stunda vændi sé álíka og þeirra sem hafa lent í miklu áfalli, svo sem nauðgun, heimilisofbeldi eða hernaðarástandi. „Það er annað að stemma stigu við einhverju sem er hættulegt efni, sem er kannski lífshættulegt, heldur en sjálfstæðum vilja fólks,“ sagðir þú í umræðum í Sunnudagsmorgni en þó vændi sé ekki eiturefni, hefur það samt sem áður mjög skaðleg áhrif, bæði andlega, eins og ég sagði hér á undan, og líkamlega þar sem vændiskonur/-karlar eru mun berskjaldaðri fyrir kynsjúkdómum og ofbeldi. Það tel ég ekki að muni breytast með lögleiðingu.

Ég held að þú ættir jafnvel að hugleiða eigin orð sem ég hef eftir þér úr Sunnudagsmorgni: „Ég er ekki sérstakur áhugamaður um kampavínsstaði og ekki einu sinni kampavín heldur og hvað þá að tala við einhverja konu sem hvorki talar íslensku né ensku.“ Þarna komstu með það. Á Íslandi eru lífsskilyrðin það góð að mjög fáir ef einhverjir Íslendingar velja sér vændi, nema um sé að ræða alvarleg vandamál svo sem fíkniefnavanda eða eitthvað slíkt.

Úr pistli þínum á Pressunni: „Meðan lögreglan er bundin við að hlera þessa kynlífsiðkendur og handtaka í stórum stíl situr hún aðgerðarlaus þegar stolið, höfundarvarið efni er sett á netið og halað þar niður af fjölda manns. Refsing fyrir þau brot er þyngri en fyrir kynlífsviðskipti og þar verða höfundar fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni. Þar eru því raunveruleg fórnarlömb.“

Mér þykir miður að þú haldir að það séu ekki raunveruleg fórnarlömb í vændi. En ég vona að ég hafi sýnt fram á það að einhverju leyti í þessari grein. Raunveruleikinn nær langt út fyrir fjárhag og efnislega hluti.

Þó að þú sjáir það ekki, heyrir ekki í því eða finnir ekki fyrir því, þá þýðir það ekki að það sé ekki til.

Virðingarfyllst

Gríma Kristjánsdóttir

leiklistarnemi og mannréttindabaráttukona

https://www.althingi.is/altext/133/s/0020.html

https://visindavefur.is/svar.php?id=53283

https://ruv.is/sarpurinn/sunnudagsmorgunn/03112013-2

https://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Brynjar/er-engin-forgangsrodun-hja-logreglu

https://www.dv.is/blogg/brynjar-nielsson/2013/10/31/hve-glod-er-vor-aeska/

https://www.youtube.com/watch?v=D_rVxxdQ-3A#t=204










Skoðun

Sjá meira


×